Fyrirtækjaráðgjöf Kviku, fyrir hönd Lindarhvols ehf., hefur byrjað að auglýsa Lyfju hf. til sölu, eins og sjá má á síðum Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma höfðu Hagar ætlað að kaupa fyrirtækið fyrir 6,7 milljarða en Samkeppniseftirlitið setti kaupunum stólinn fyrir dyrnar í júli. Sagði eftirlitið að samruni Haga og Lyfju myndi skaða samkeppni, og vísaði stofnunin þá einkum til hreinlætis- og snyrtivörumarkaðs.

Miklar umræður sköpuðust í kjölfarið á því hvort eftirlitið hefði tekið nægilega mikið tillit til i nnkomu Costco sem selur meðal annars lyf, auk hreinlætis- og snyrtivara í gríðarstóru vöruhúsi sínu í Garðabæ, var fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson einn þeirra sem gagnrýndu eftirlitið.

Fyrri salan var af hálfu Virðingar, en eftir samruna fyrirtækisins við Kviku tók það síðarnefnda við söluferlinu fyrir Lindarhvol , sem stofnað var til að sjá um stöðugleikaeignirnar sem ríkið fékk í nauðasamningum við slitabú föllnu bankanna.

Rekur samtals 50 sölustaði

Í auglýsingunni segir að Lyfja sé stærsta keðja apóteka og heilsuverslana á Íslandi, en samtals rekur félagið 50 apótek, útibú og verslanir um land allt undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins.

Einnig á Lyfja dótturfélagið Heilsu ehf. sem sérhæfir sig í innflutningi og dreifingu á matvörum, vítamínum, snyrtivörum og almennri apóteksvöru.

Ríkissjóður er eigandi félagsins en Lindarhvoll ehf. sér um umsýslu þess og hefur falið fyrirtækjaráðgjöf Kviku að selja félagið í opnu söluferli.

Frá og með fimmtudeginum 9. nóvember, það er í dag, geta áhugasamir fjárfestar sem undirrita túnaðarauglýsingu og skila umbeðnum upplýsingum fengið afhent ítarleg sölugögn um félagið.

Áhugasömum bjóðendum er boðið að skila inn óskuldbindandi tilboði fyrir kl. 16 föstudaginn 15. desember. Þeim sem eiga hagstæðustu tilboðin verður boðin áframhaldandi þátttaka í ferlinu og munu þeir fá aðgang að rafrænu gagnaherbergi með ítarlegri gögnum, kynningu á félaginu frá stjórnendum Lyfju hf. og gefst kostur á að framkvæma áreiðanleikakönnun á félaginu.

Áhugasamir fjárfestar eru beðnir um að hafa samband við fyrirtækjaráðgjöf Kviku með tölvupósti á netfangið [email protected] og munu þeir í framhaldinu fá stutta kynningu á félaginu og frekari upplýsingar um söluferlið.