Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala, segir að sölusprengja hafi orðið í maí og þá hafi selst margar nýbyggingar. Hann veltir því upp hvort þetta gæti hafa haft sín áhrif á hækkun vísitölu íbúðaverðs, enda er fermetraverð nýbygginga iðulega hærra en annarra fasteigna. Síðustu tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 11%.

„En auðvitað er það þannig að aukinn kaupmáttur og fleiri kaupendur hafa þau áhrif að ýta upp verði, það er svo sem bara markaðslögmálið. Og framboð fjármálafyrirtækja á lánum hefur verið að aukast,“ segir Kjartan.

Hann segir ungt fólk hafa verið að koma út á markaðinn í áberandi miklum mæli. Fólk upp í 35 ára aldur hafi lítið keypt undanfarin ár en sé nú að koma með auknum krafti inn á markaðinn. Þá sé fólk á aldrinum 35-45 ára að taka stökkið og stækka við sig, sem losar um eignir fyrir yngri hópinn. „Tannhjólin eru farin að virka. Fyrir utan það að það vantar inn á markaðinn litlar íbúðir. Það er svo sem ekkert nýtt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .