Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti í dag skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri og prófessor emeritus við HR, vann fyrir ráðuneytið. Niðurstöður skýrslurnar eru m.a. þær að ekki sé líklegt að söluandvirði lands ríkisins undir Reykjavíkurflugvelli dugi til að byggja nýjan flugvöll á eina valkostinum, í Hvassahrauni, en mikla undirbúningsvinnu þurfi til að hann geti orðið raunhæfur.

Núverandi flugvöllur er einstæður í legu sinni við alla helstu viðbragðsaðila og ef loka eigi honum eftir 7 ár þurfi að undirbúa byggingu þyrluflugvallar við sjúkrahúsið. Algerlega óviðunandi er að ekki sé suðvestur/norðaustur flugbraut á Suðvesturhorni landsins.

Vill finna ásættanlega lausn á framtíð vallarins

Einnig kynnti ráðherra skipan nefndar sem falið verður að finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu. Skýrsluhöfundi var falið að skilgreina og leggja mat á öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar og að meta hvernig og hversu vel núverandi staðsetning og aðrar mögulegar staðsetningar flugvallar fyrir höfuðborgarsvæðið myndu uppfylla þetta hlutverk.

Markmiðið var að skoða nánar öryggisþætti, sem í víðtækum skilningi flokkast undir samfélagslegt öryggi, þ.e. almennt öryggi landsmanna og almannavarnir, og setja í samhengi við meginhlutverk Reykjavíkurflugvallar að vera miðstöð innanlandsflugsins.
Ekki var gert ráð fyrir öflun nýrra gagna heldur að greiningin mundi byggjast á því að nýta fyrirliggjandi skýrslur og heimildir um framtíðarmiðstöð innanlandsflugsins, náttúruvá og almannavarnir.

Gerir kleyft að bregðast hratt við aðstæðum

Í skýrslunni kemur fram að almennt öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar felst fyrst og fremst í að gera viðkomandi stjórnvöldum og björgunarsveitum kleift að bregðast hratt og áreiðanlega við aðstæðum sem borgurunum og jafnvel þjóðfélaginu í heild stafar ógn af.

Lega flugvallarins í næsta nágrenni við helstu auðlindir þjóðfélagsins hvað varðar mannafla, sérfræðiþekkingu, aðstöðu og hvers konar búnað og birgðir, sem þörf er á til að leysa úr þeim vandamálum sem koma upp við slíkar aðstæður, er að flestu leyti einstæð.

Nálægðin við helstu miðstöðvar og björgunaraðila, sem gegna lykilhlutverki í slíkum tilvikum, skiptir einnig miklu máli. Flytjist þetta hlutverk til nýs flugvallar er fyrirsjáanlegt að þeir kostir sem fást með staðsetningu Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri muni rýrna að mörgu leyti.

Slíkt er auðséð þegar um sjúkraflug er að ræða en á einnig við um aðra öryggisþjónustu. Með flugvelli á nýjum stað verður að tryggja að hægt sé að meðhöndla bráðatilvik á öruggan og skjótan hátt einkum með því að koma upp nútímalegu vegasambandi milli nýs flugvallar og miðborgarinnar.

Í skýrslunni eru síðan viðaukar sem annars vegar fjalla nánar um öryggishlutverk flugvallar og hvaða kröfur slíkt hlutverk gerir og bornir eru saman kostir Reykjavíkurflugvallar og mögulegs flugvallar í Hvassahrauni hvað þetta varðar. Hins vegar er í viðauka fjallað um þyrluflugvöll og hvaða breytingum sjúkraflug með þyrlum myndi taka ef Reykjavíkurflugvallar nyti ekki við.

Nánar tiltekið eru helstu niðurstöður skýrslunnar þessar:

  • Öryggi þjóðfélagsins og flugöryggi gera það að verkum að tveir flugvellir verða að vera á Suðvesturlandi.
  • Reykjavíkurflugvöllur uppfyllir hlutverk sitt sem alhliða öryggisflugvöllur afar vel.
  • Hvassahraun er í raun eini hugsanlegi annar kostur en Reykjavíkurflugvöllur í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
  • Mikill undirbúningur er nauðsynlegur áður en hægt er að lýsa því yfir að flugvöllur í Hvassahrauni sé raunhæfur kostur sem innanlandsflugvöllur.
  • Ef loka á Reykjavíkurflugvelli árið 2024 þarf að gera ráðstafanir varðandi aðflug þyrlna að Landspítalanum sérstaklega varðandi skipulag og notkun lands í Vatnsmýrinni.
  • Sala á því landi sem ríkið á nú í Vatnsmýrinni stendur að öllum líkindum ekki undir kostnaði af byggingu flugvallar í Hvassahrauni nema að takmörkuðu leyti.
  • Óviðunandi er að ekki sé SV/NA flugbraut á suðvesturhorni landsins.
  • Reykjavíkurflugvöllur gegnir afar mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug þótt þetta hlutverk fari minnkandi vegna þess að íslensku flugfélögin eru að taka í notkun nýjar flugvélar sem gera kröfur um lengri flugbrautir.
  • Reykjavíkurflugvöllur hefur reynst frábærlega vel sem kennsluflugvöllur.
  • Tryggja verður rekstur Reykjavíkurflugvallar á meðan nýjum flugvelli til að taka við hlutverki hans hefur ekki verið fundinn staður og hann byggður.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tilkynnti einnig um skipan nefndar sem finna skal ásættanlega laus á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.“

Ráðherra lýsir sig reiðubúinn til að hefja viðræður um framtíð Reykjavíkurflugvallar og telur að slíkar viðræður suli taka mið af eftirfarandi skilyrðum:

  • Flugvellir á suðvesturhorni landsins þurfa að uppfylla skilyrði um að allir landsmenn komist til og frá höfuðborgarsvæðinu innan 3,5 klst ferðatíma. Þjónustan verði sambærileg við núverandi flugvöll er varðar getu og afköst.
  • Af öryggissjónarmiðum þurfa tveir flugvellir sem þjónað geta millilandaflugi með góðu móti að vera á suðvesturhorni landsins.
  • Stjórnvöld geta ekki skuldbundið sig við dagsetningar til þess að opna nýjan flugvöll fyrr en staðsetning og hönnun liggur fyrir og að öll skilyrði um þjónustu flugvallarins og fjármögnun af fjárlögum eru uppfyllt.
  • Flugvellir á suðvestur hluta landsins þurfa að uppfylla skyldur öryggishlutverks gagnvart íbúum landsins, þar með talið almannavarnarhlutverks, leitar- og björgunar og sjúkraflugs. Jafnfamt er mikilvægt að góð aðstaða fyrir kennslu- og þjálfunarflugs séu á slíkum flugvelli.
  • Formaður nefndarinnar er Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður og aðrir í nefndinni eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði, Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði og Linda Gunnarsdóttir flugstjóri.