Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga við hátíðlega athöfn í gær.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti verðlaunin en Sölvi er kannski flestum kunnugur frá því að hann starfaði í hljómsveitinni Quarashi eins og sagt er frá í frétt félagsins um verðlaunin.

Sagðist aldrei hafa trúað þessu

Við móttöku verðlaunanna sagði Sölvi að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins, þar sem öll þau verðlaun sem hann hafi tekið við hingað til hefðu verið vegna tónlistarinnar.

Sölvi hamraði svo á því að hagfræðingar væru mikilvægir fyrir samfélagið og sagði að stéttin þyrfti að vera dugleg að tjá sig opinberlega og segja frá niðurstöðum sinna greininga þó svo að þær ættu ekki alltaf uppá pallborðið og það geti verið erfitt að tala á móti straumnum.

„Hagfræðin er lykillinn í því að taka góðar ákvarðanir hvort sem það er fyrir einstaklinga eða okkur öll sem heild,“ er þar haft eftir Sölva.

Í rökstuðning dómnefndar fyrir vali á Sölva sem hagfræðingi ársins segir:

Sölvi lauk B.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands með áherslu á verðmyndun á fasteignamarkaði. Sölvi lauk síðan M.Sc. prófi í hagfræði frá háskólanum í Stokkhólmi árið 2010.

Á árunum 2010-2011 stundaði Sölvi rannsóknir á fasteignaverði í Stokkhólmi og frá febrúar 2012 hefur Sölvi haft doktorsstöðu við Háskólann í Stokkhólmi með rannsóknir á fjármála og fasteignabólum í Skandinavíu sem viðfangsefni.

Sölvi Blöndal hefur um árabil starfað sem hagfræðingur hjá Gamma og hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum fasteignamarkaði og hefur verið stefnumótandi hjá því fyrirtæki.

Um mitt síðasta ár festi Sölvi sig rækilega í sessi á íslenskum tónlistarmarkaði þegar hann stofnaði Öldu, nýtt útgáfufyrirtæki sem tók yfir tónlistarhluta Senu og hefur síðan fengið til sín stór nöfn í íslenskri tónlist og er hann því mjög áhrifamikill í íslensku tónlistarlífi.

Sölvi situr einnig í stjórn E7 sem starfrækir 23 hljóðver með mörgum af helstu tónlistarmönnum og framleiðsluaðilum landsins.

Reynslan af E7 hefur sýnt að samlegðaráhrif hafa haft afar jákvæð áhrif, einkum þegar um frumkvöðlastarfsemi er að ræða. Starfsemin á E7 er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi.

Að auki hefur Sölvi átt glæstan tónlistarferil og kom hann Quarashi upp á stjörnuhimininn um víða veröld og hefur sú hljómsveit átt eftirtektarverða endurkomu undanfarin ár.

Það verður áhugavert að sjá Sölva koma enn sterkar inn með kraft og nýjar nálganir í tónlistariðnaðinn á Íslandi.