Sósíalistaflokkurinn, sem stofnaður var  1. maí á síðasta ári, stóð fyrir Sósíalistaþingi í Rúgbrauðsgerðinni i gær. Í tilkynningu frá flokknum segir að meðal annars hafi verið rætt um mögulegt framboð til sveitarstjórnarkosninga í vor  en kosið verður þann 26. maí.

„Mikill fjöldi fundarmanna tók til máls. Margir vildu bjóða fram og töldu flokkinn eiga brýnt erindi í sveitastjórnir, sem færu með mörg mikilvæg hagsmunamál launafólks og almennings. Aðrir vildu að flokkurinn legði áherslu á verkalýðsfélög og önnur almannasamtök á næstu mánuðum og óttuðust að framboð myndu dreifa kröftum og athygli. Enn aðrir vor beggja blands.

Sósíalistaþing fól framkvæmdastjórn að ýta undir umræður flokksmanna um framboð, sækja sjónarmið sem flestra og boða fljótlega til félagsfundar þar sem ákvörðun yrði tekin um framboð til sveitastjórna."

Sósíalistaflokkurinn er hugmynd Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi eiganda og ritstjóra Fréttatímans og forstjóra Dagsbrúnar, sem var m.a. móðurfélag Fréttablaðsins og Stöðvar 2.