Alþjóðlegu flugmálayfirvöldin (IATA) spá því að flugfélög á alþjóðavísu muni tapa 47,7 milljörðum dala eftir skatta í ár. Samtökin lækkuðu afkomuspá sína fyrir 2021 um níu milljarða dala frá desember spá sinni þegar þau áætluðu að tap flugfélaga yrði nær 38,7 milljörðum dala.

Í skýrslu IATA segir að flugiðnaðurinn hafi farið hægar af stað í ár heldur gert var ráð fyrir vegna nýrrar bylgju af Covid smitum. Einnig hafi samgöngutakmarkanir og tafir á bóluefnum haft neikvæð áhrif á afkomuspánna.

IATA gerir ráð fyrir að flugfélög í Norður Ameríku verði með minnsta rekstrartapið í ár vegna aukinna umsvifa á innanlandsmarkaði og þar sem vel hafi gengið að við bólusetningu. Hins vegar spá samtökin því að flugfélög á Evrópumarkaði skili lökustu afkomunni í ár þar sem bóluefnadreifing hefur gengið hægt og að alþjóðaflug hafi ekki enn tekið við sér vegna samgöngutakmarkana.

Miðað við framangreinda afkomuspá gerir IATA ráð fyrir að flugfélög muni brenna í gegnum 81 milljarð dala í ár. Hækkandi kostnaður, m.a. vegna hærra olíuverðs, muni gera flugfélögum erfitt fyrir að draga úr þessari þróun.

Hér að neðan má sjá rekstrarhagnaðarhlutfall flugfélaga, sundurliðað eftir heimsálfum, á síðustu tveimur árum og með spá fyrir árið 2021. Myndin er tekin frá skýrslu IATA.

IATA afkomuspá
IATA afkomuspá