Vísitala neysluverðs mun lækka um 0,2% í janúar frá fyrri mánuði og ársverðbólgan mun hjaðna úr 5,1% niður í 5,0%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka. Hagfræðideild Landsbankans spáir einnig 5% verðbólgu.

Greiningadeild Íslandsbanka spáir því að verðbólgan muni halda áfram að hjaðna á árinu og verði komin nær 3% í lok árs. Auk þess er spáð að verðbólgan verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrri hluta árs 2023. Hagstofan birtir verðbólgutölur fyrir janúarmánuð þann 28. janúar næstkomandi.

Húsgögn og heimilisbúnaður lækka um 3,8% í mánuðinum og föt og skór um 6,1% vegna janúarútsölu. Einnig lækka flugfargjöld um rúm 7% í mánuðinum, sem er árstíðabundin lækkun vegna hækkana í desember. Í spá Íslandsbanka segir jafnframt að húsnæðisliðurinn vegi enn þungt í vísitölu neysluverðs og að reiknuð húsaleiga hækki um 0,7%.

Í spá Íslandsbanka er gert ráð fyrir styrkingu krónunnar á árinu, en ferðamönnum mun að öllum líkindum fjölga milli ára. Einnig muni hægja á íbúðamarkaði með hækkandi vöxtum og auknu framboð íbúða. Auk þess er gert ráð fyrir að framboðshnökrar erlendis muni ná jafnvægi á árinu.

Í hagsjá Landsbankans er áætlaði að verðbólga án húsnæðis verði 3% í janúar, einungis hálfu prósenti yfir markmiði Seðlabankans.