Samkvæmt farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að tæplega 5,7 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár, sem er um 79% af þeim fjölda sem fór um völlinn árið 2019, þ.e. fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn, og 162% fleiri farþegar en fóru um völlinn í fyrra. Isavia birti sína fyrstu farþegaspá frá því fyrir kórónuveirufaraldurinn í morgun.

Gert er ráð fyrir að endurheimtin í fjölda farþega yfir hásumarið og fram á haust verði 93% í júlí, 91% í ágúst og 98% í september. Þá verði farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll í októbermánuði í ár nærri 700 fleiri en sama mánuð 2019.

„Endurheimtin er hraðari en við bjuggumst við fyrr á þessu ári,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia. „Samkvæmt farþegaforsendum sem við gerðum í byrjun febrúar var útlit fyrir að heildarfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll yrði tæpar 4,6 milljónir. Nú hefur sú tala hækkað um ríflega eina milljón.“

Sjá einnig: Kröftug viðspyrna ferðaþjónustunnar

Spáð er að fjöldi skiptifarþega nærri tvöfaldist nú í maí og aukist jafnt og þétt fram á  haust. Tvö félög bjóða nú upp á tengiflug milli Evrópu og Norður-Ameríku um Keflavíkurflugvöll. Auk Icelandair hóf Play flug vestur um haf í apríl. Farþegaspáin gerir ráð fyrir að tengifarþegar verði tæplega 1,5 milljónir fyrir allt árið 2022 en þeir voru rétt rúmar 2 milljónir 2019 og 350 þúsund í fyrra.

Flugfélögin sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar verða 24 talsins samanborið við 25 flugfélög sumarið 2019. Þá eru áfangastaðirnir nú í sumar 75 en voru 80 sumarmánuðina 2019. Grétar segir að Isavia geri ráð fyrir að fjöldi ferðamanna á Íslandi í ár verið á bilinu 1,4-1,5 milljónir. Fyrri forsendur gerðu ráð fyrir 1,2 milljón farþegum.

„Heimurinn er að opnast eftir heimsfaraldurinn og ferðaþjónustan að vakna eftir erfitt tímabil. Við hjá Isavia erum bjartsýn fyrir sumarið og á framtíðina. Árið 2022 endurheimtum við ferðagleðina. Þetta verður líka eitt mesta framkvæmdaár í sögu Keflavíkurflugvallar. Við erum að stækka og bæta flugstöðina til að geta enn betur tekið á móti ferðafólki til framtíðar,“ segir Grétar.