Það er mat Isavia að fjöldi erlendra farþega til Íslands í ár verði 1.927 þúsund. Þeim fækki því um 388 þúsund milli ára. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýbirtri farþegaspá Isavia.

„Skiptifarþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll fækkar um 43 prósent frá í fyrra, úr tæpum 3,9 milljónum í tæpar 2,2 milljónir. Þar munar tæplega 1,7 milljónum farþega. Mestu munar um brotthvarf WOW air.
Uppfærðar tölur um farþegafjölda í júní og til loka desember benda til að heildarfjöldi farþega sem fari um Keflavíkurflugvöll árið 2019 verði um 7,3 milljónir," segir í spánni.

„Útlit er fyrir að íslenskir farþegar um Keflavíkurflugvöll verði um 631 þúsund árið 2019 sem er 37 þúsund færri en í fyrra.
Farþegaspá Isavia 2019 fyrir Keflavíkurflugvöll er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélögin hafa tryggt sér. Farþegaspáin byggir á upplýsingum úr kerfum Isavia, til viðbótar við þær fréttir sem borist hafa af flugfélögum. Spáin er að því leyti unnin með öðrum hætti en áður. Isavia telur hinsvegar að fyrir liggi nægar upplýsingar til að gefa út uppfærða farþegaspá og svara þannig ákalli markaðarins. Breytist forsendur verður þessi spá uppfærð."