Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) milli mánaða, en Hagstofan mun birta októbermælingu VNV þann 28. október næstkomandi. Gangi spá Hagfræðideildarinnar eftir mun verðbólgan lækka úr 3% í 2,6%.

Ofangreint er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans . Þar kafar Hagfræðideildin jafnframt ofan í ástæðurnar á bakvið þessa spá sína. Þar segir að kaup á ökutækjum muni lækka vegna styrkingar gengis krónunnar, föt og skór lækki lítillega, verð á þjónustu hótela og veitingastaða lækki milli mánaða og að flugfargjöld til útlanda hækki alla jafna milli mánaða í október.