Arion banki hefur uppfært verðbólguspá sína fyrir októbermánuð og segir greiningardeild bankans að nú megi búast við lítið eitt meiri verðbólgu en gert var ráð fyrir í síðustu skammtímaspá bankans. Gerir greiningardeildin ráð fyrir að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,3% á milli mánaða en ástæðuna megi fyrst og fremst rekja til húsnæðisverðs.

Í síðasta mánuði hafi einkum sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað talsvert í verði, og vel umfram væntingar bankans, sem hafi knúið verðbólguna áfram. Einnig hafi verðhækkanir á húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins haft þar áhrif segir í spá bankans .

Verð fjölbýlis stendur í stað

Á sama tíma hafi samt hægt á hækkunum íbúðaverðs, en vísitala íbúðaverðs hefur einungis hækkað um 1,3% frá því í júnímánuði. Auglýstum fasteignum hafi svo fjölgað statt og stöðugt frá því í mars, svo bankinn spáir að í október muni hækkunin nema 0,55%.

Telur bankinn að verð á sérbýli muni hækka á milli mánaða, en að verð fjölbýlis standi nánast í stað. Það sé vegna þess að ekki sé innistæða fyrir áframhaldandi veglegum hækkunum, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, en til þess að svo geti orðið þurfi talsverða hækkun ráðstöfunartekna eða lækkun fjármagnskostnaðar.

Breytt fjármögnun gæti hækkað húsnæðisverð

Þó minnir bankinn á að íbúðakaup hafi verið mikið í umræðunni nú í aðdraganda kosninga en minna á að allar breytingar á fjármögnun húsnæðiskaupa geti haft veruleg áhrif á þróun húsnæðisverðs. Í október búast þeir hins vegar við að flugfargjöld, matarkarfa og húsnæðisliður muni drífa hana áfram meðan aðrir liðir breytist lítillega.

Gangi spá bankans eftir muni ársverðbólgan standa í 1,7%, en spáin hljóðar upp á verðlagshækkun um 0,10% í nóvember, 0,25% í desember en svo 0,50% lækkun í janúar. Það þýðir 2,0% ársverðbólgu í janúar á næsta ári. Bendir bankinn á að ólíklegt verði að allar ytri aðstæður geti aftur unnið með íslenska vinnumarkaðnum eins og gerðist við síðustu launahækkanir.

Telur bankinn að heppni hafi ollið því að á sama tíma og launin hafi hækkað hafi viðskiptakjör batnað til muna, krónan styrkst, samkeppni á markaði harðnað, framleiðni vinnuafls aukist og ferðaþjónustan haldið áfram að vaxa og dafna. Allir þessir þættir hafi vegið gegn því að launahækkanirnar skiluðu sér út í verðlagið.

Áhyggjur af aðgerðum komandi ríkisstjórnar

„Það er einkar ólíklegt að vinna stóra vinninginn tvisvar og teljum við því að og hækkun launakostnaðar vel umfram framleiðnivöxt mun líklega leiða af sér meiri verðbólgu eins og svo oft áður í Íslandssögunni,“ segir m.a. í greiningu bankans.

„Hvernig verðbólgan þróast á næsta ári mun stýrast af ólíkum þáttum, s.s. launaþróun, framboðshlið húsnæðismarkaðarins, vaxtastigi og síðast en ekki síst opinberum fjármálum og aðgerðum komandi ríkisstjórnar t.d. á húsnæðismarkaði.“