Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að stýrivextir verði óbreyttir eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans næstkomandi miðvikudag. Gangi spá bankans eftir verða meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, áfram 0,75% eins og þeir hafa verið frá nóvember síðastliðnum.

Fram kemur í frétt Íslandsbanka að á árinu muni Seðlabankinn líklega styðja við fjármögnun á halla ríkissjóðs frekar en að hækka stýrivexti. Þá kemur fram að miðlun peningastefnunnar yfir í skammtímavexti hafi gengið ágætlega en langtíma vextir séu „hærri en heppilegt væri".

Stýrivaxtaspá bankans gerir ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum út árið, eða þar til skýrar vísbendingar eru komnar fram um efnahagsbata. Vextir taki svo að hækka jafnt og þétt næstu tvö árin.

Dragist efnahagsbatinn á langinn sé eflaust enn lengra í hækkun vaxta en ella, að mati Íslandsbanka, og þá sé ekki útilokað að þeir verði lækkaðir eitthvað á árinu ef verulega syrtir í álinn.

Spáin nær út árið 2023, en gert er ráð fyrir því að stýrivextir muni fyrst fara fram úr verðbólgu það árið en samkvæmt spánni verða stýrivextir 3% í lok spátímans.

Verðbólguvæntingar ekki haggast

Greining Íslandsbanka bendir á að í verðbólguskotinu nú hafi langtímavæntingar markaðsaðila til verðbólgu ekki haggast. Helst sé það almenningur sem enn er tortrygginn á að verðbólga verði í samræmi við markmið Seðlabankans til lengri tíma litið.

Kannanir á væntingum framáfólks í atvinnulífinu, sem og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði, segi hins vegar svipaða sögu og væntingar markaðsaðila. Sú breyting létti Seðlabankanum verulega það verk að framfylgja verðbólgumarkmiði sínu, enda hafi væntingar mikil áhrif á verðbólguþróun þegar til lengdar lætur.

Kalla eftir leiðsögn Seðlabankans

Greining Íslandsbanka telur að það væri gagnlegt ef Seðlabankinn gæfi einhverskonar leiðsögn um það við hvaða aðstæður peningalegt aðhald yrði hert að nýju, en bent er á að brattur framvirkur vaxtaferill á markaði gæta að einhverju leyti endurspeglað væntingar um að stýrivextir muni hækka fyrr en seinna.

„Þá væri meiri vissa um þróun skammtímavaxta næsta kastið vafalítið kærkomin heimilum og fyrirtækjum og myndi gera þessum aðilum auðveldara að skipuleggja fjárhag sinn þar til Kórónukreppunni fer að slota fyrir alvöru," segir í frétt Íslandsbanka.