Stýrivöxtum verður haldið óbreyttum í næstu vaxtaákvarðanatilkynningu peningastefnunefndar Seðlabankans, ef marka má spár Greiningardeildar Arion banka. Síðustu fjögur skipti hefur vöxtum verið haldið óbreyttum.

Greiningardeildin fjallar um þetta í nýju fréttabréfi sínu. Þar segir að ekki sé algjörlega útilokað að peningastefnunefnd kjósi nú að hækka vexti, til dæmis ef hækkun vísitölu neysluverðs í maí verður um fram væntingar.

Þó hefur lítið breyst, hagfræðilega séð, frá síðustu vaxtaákvörðun, sem var fyrir mánuði, að sögn Greiningardeildarinnar. Gjaldeyrisútboð Seðlabankans mun að öllum líkindum ekki hafa veruleg áhrif á peningastefnuna að þeirra mati.

Talsverður gjaldeyrir mun þá flæða inn í landið á háannatímum ferðaþjónustunnar líkt og hefur gerst síðustu sumur. Það myndi að líikindum þýða gengisstyrkingu eða litlar gengisbreytingar í það minnsta.

Fréttabréf greiningardeildar bankans má lesa í heild sinni með því að smella hér .