Á fimmtudaginn mun Mario Draghi, seðlabankastjóri evrópska seðlabankans, kynna peningastefnu bankans. Greiningaraðilar telja það ólíklegt að ráðist verði í vaxtalækkanir í þessum mánuði, en gera má ráð fyrir frekari inngripum í haust.

Hagfræðingar bankans spá litlum hagvexti á evrusvæðinu, og spilar útganga Breta úr Evrópusambandinu sitt hlutverk í þeim málum. Markaðir búast við því að bankinn muni reyna að örva hagvöxt enn frekar, en óvíst er hversu langt bankinn getur gengið.

Eins og stendur eru stýrivextir 0% og innlánsvextir bankans neikvæðir um 0,4%. Draghi og félagar hafa einnig reynt að örva hagvöxt með miklum kaupum á skuldabréfum, og ætla að nota allt að 1,7 þúsund milljarða til þess.

Verðbólga á evrusvæðinu var 0,1% í júní, og er því langt undir verðbólgumarkmiðum bankans sem nema 2%. Ólíklegt er að bankinn nái þeim markmiðum í náinni framtíð.