Greining Íslandsbanka er sammála því sem fram kom í spá greiningardeilar Arion banka í gær um að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni ákveða á fundi sínum á miðvikudag í næstu viku, 20. mars, að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,5%.

Nefndi Arion banki að hækkandi raunvextir, hægari vöxtur í innlendri eftirspurn, samdráttur í kortaveltutölum og lækkun verðbólgu muni slá hækkun vaxta út af borðinu og miðað við fundargerðir peningastefnunefndar sé þá einungis óbreyttir vextir eftir meðal valkostanna sem nefndin íhugi nú.

Íslandsbanki veltir fyrir sér hvort stýrivextirnir verði óbreyttir út áratuginn, en á sama tíma og verðbólguhorfur hafi skánað og verðbólguálag á markaði lækkað séu nú efnahagshorfur til skemmri tíma tvísýnni en áður.

Bendir bankinn á að við síðustu vaxtaákvörðun hafi í fyrsta sinn frá því í október verið einhugur innan nefndarinnar. Þar hafi horfur á minnkandi spennu og lækkun verðbólguvæntinga vegið þyngra en áhyggjur af hækkandi verðbólgu til skamms tíma.

Verðbólgan hækkar

Arion banki spáir því að í marsmælingum Hagstofu Íslands sem standa yfir þessa dagana muni koma í ljós 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs, sem sé 0,2 prósentustigum hærri en síðasta bráðabirgðaspá bankans. Þar með hækki tólf mánaða taktur vísitölunnar, öðru nafni verðbólgan, úr 3,0% í síðasta mánuði í 3,1%.

Íslandsbanki segir að frá því stýrivaxtaákvörðunin var tekin í febrúar hafi síðan skammtíma verðbólguhorfur heldur batnað, og efnahagshorfur versnað með vísbendingum að framleiðsluspenna minnki hraðar en Seðlabankinn spáði.

Því fari þörfin fyrir peningalegt aðhald minnkandi og vextir því halda óbreyttir út árið, nema ef kjarasamningarnir muni leiða til óhóflega mikils launaþrýstings og eða ef gengi krónunnar gefi að nýju umtalsvert eftir. Þannig telur Arion banki ólíklegt að 4% verðbólguvígið falli að sinni, þó bankinn búist við áframhaldandi hækkun verðbólgunnar fram í maí, en eftir það fari hún lækkandi.

Segja þeir að þrátt fyrir óviss um kjarasamninga og áhrif þeirra á verðlag sé margt sem gæti haft jákvæð áhrif á verðlag næstu misserin:

  • minni hækkanir fasteignaverðs, aukið framboð eigna á söluskrá og kaupsamningar eru frekar að falla undir ásettu verði
  • lækkun bindiskyldu í 0% gæti haft áhrif á krónuna til styrkingar
  • matarkarfan hefur hækkað minna en við töldum líklegt miðað við þróun krónunnar á síðari hluta síðasta árs. Í uppgjörum Haga og Festi kemur fram að félögin hafi ekki náð að ýta kostnaðarhækkunum út í verðlag, en spurningin er hvort að þetta sé tímabundið og að áhrifanna gæti einfaldlega síðar eða að þetta sé vegna aukinnar samkeppni og lækkandi álagningar