PricewaterhouseCoopers LLP. spáir því að vélar muni sinna um þriðjungi allra starfa í Bretlandi eftir 15 ár. Þessi öra tækniþróun mun þá að öllum líkindum auka framleiðni til muna og þá munu áður óþekkt störf skapast.

Greint er frá spádómi PwC á miðlum BloombergMarkets og er því spáð að vélvæðingin muni hafa mest áhrif á flutnings- og framleiðslugeirann. Jafnframt er því spáð að heilbrigðiskerfið og menntakerfið verði fyrir minnstu breytingunum.

Forsvarsmaður greiningarvinnunnar, er John Hawksworth, yfirhagfræðingur PwC. Hawksworth telur að bretar muni njóta góðs af vélvæðingu og þeirri framleiðniaukningu sem henni fylgir.

Meiri framleiðni, leiðir af sér meiri hagsæld og þá verður hægt að vanda sig við störf sem ekki er hægt að vélvæða á jafn einfaldan máta.

Englandsbanki hefur jafnframt verið að vinna í greiningu á viðfangsefninu. Andrew Haldane, yfirhagfræðingur bankans, telur til að mynda að um 15 milljón störf geti glatast.

Skýrsla PwC virðist einnig benda til þess að störfum karla sé frekar ógnað en störfum kvenna. Sagan virðist þó benda til þess að litlar áhyggjur þurfi að hafa af tækniframförum. Almennt eru þær af hinu góða, þó þeim fylgi oft tímabundinn höfuðverkur.