Notkun á olíu í heiminum mun toppa á seinni hluta fjórða áratugs þessarar aldar samkvæmt nýrri spá frá breska olíuframleiðandanum BP en frá þessu er greint á vef BBC.

Heildarnotkun á olíu í heiminum í dag er um 100 milljón tunna á hverjum degi en BP býst við að sú tala hækki um 10% áður en hún fer að lækka aftur.

BP býst einnig við að endurnýjanleg orkunotkun fimmfaldist fyrir árið 2040. Ennfremur að 40% af heildaraukningu á orkueftirspurn verði mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Þá býst BP við því að aukin skilvikni í samgöngum muni draga úr eftirspurn eftir olíu.