Samtök atvinnulífsins segja að þrátt fyrir að lengi hafi verið varað við framboðsskorti húsnæðis hér á landi hafi flest úrræði hins opinbera og tillögur að lausn á húsnæðisvandanum beinst að eftirspurninni, og síður að því að auka framboðið.

Segja samtökin þessa stefnu því frekar til þess fallna að ýta undir frekari hækkun húsnæðisverðs að því er fram kemur í nýrri greiningu SA á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins.

Þó þeir segji áherslu á uppbyggingu á þéttingarreitum vera rökrétt skref hafi sú stefna reynst tímafrek og hún hafi ýtt undir verðhækkanir og segja þeir því að þétting byggðar þurfi að eiga sér stað alls staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Til viðbótar við uppsafnaða þörf frá árinu 2009 sem skapast hefur því ekki hafi verið nægilega byggt á höfuðborgarsvæðinu frá þeim tíma þá sé nú árleg fjölgun landsmanna álíka mikil og þegar mest lét árin 2006 til 2008.

Er gert ráð fyrir að hún vari nú í lengri tíma, en það sem af er ári eru 7 þúsund fleiri sem hafa flutt til landsins en frá því, sem er hraðasta fjölgun frá því mælingar hófust. Segir SA því að ef spár Hagstofunnar um þessa fjölgun gangi eftir muni árleg eftirspurn eftir nýju húsnæði því verða töluvert meiri á næstu árum en hingað til.