Það var töluverð umframeftirspurn í frumútboði ACQ, fyrsta sérhæfða yfirtökufélagi Norðurlandanna, sem fór fram í gær. Hlutabréf félagsins hækkuðu mest um 9% í gær að því er kemur fram í frétt Bloomberg .

ACQ safnaði samtals 3,5 milljörðum sænskra króna, eða um 51,6 milljörðum íslenskra króna, í útboðinu. Félagið fær þrjú ár til að finna fyrirtæki til að fara með á markað með yfirtöku, sem er lengri tími en almennt tíðkast fyrir Spac félög í Bandaríkjunum. ACQ var stofnað af sænska fjárfestingarfyrirtækinu Bure Equity AB sem á 20% hlut í félaginu.

Jan Olsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankans Deutsche bank á Norðurlöndunum, sagði fyrr í mánuðinum að hans teymi væri að vinna að fleiri sérhæfðum yfirtökufélögum á Norðurlöndunum. Nasdaq í Stokkhólmi hefur einnig gefið út að fleiri slík félög væru í pípunum.

Sértök yfirtökufélög, einnig kölluð „opin tékka“ (e. open cheque) félög, hafa náð miklum vinsældum á fjármálamörkuðum vestanhafs á síðustu misserum. Árið 2021 er strax orðið metár fyrir Spac félög. Í miðjum marsmánuði höfðu slík félög safnað 79,4 milljörðum dala sem er meira en á öllu síðasta ári þegar þau sóttu 79,3 milljarða dala, samkvæmt Financial Times .

Hins vegar hefur aðeins dregið úr áhuganum upp á síðkastið en IPOX SPAC vísitalan, sem fylgir hlutabréfaverði Spac félaga, hefur lækkað um 20% frá því að hún náði hámarki um miðjan febrúar. Einnig er Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) byrjað að kanna Spac æðið.