Hluthafar bandaríska lággjaldaflugfélagsins Spirit Airlines hafa hafnað yfirtökuboði frá flugfélaginu JetBlue upp á 3,6 milljarða dala, eða um 470 milljarða króna. Spirit ætlar að halda tryggð við flugfélagið Frontier Airlines og fylgja eftir áætlunum um samruna félaganna tveggja. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal.

Yfirtökutilboð JetBlue var rausnarlegra en tilboðið frá Frontier. Þannig var tilboð Frontier upp á 2,9 milljarða dala, eða um 378 milljarða króna.

Stjórn Spirit telur áhættu felast í því að fara í samrunaviðræður við JetBlue. Ólíklegt sé að eftirlitsaðilar heimili slíkan samruna þar sem JetBlue og American Airlines hafa nú þegar hafið samstarf á flugferðum til norðausturstrandar Bandaríkjanna, þar á meðal til New York og Boston.

JetBlue hefur hins vegar ekki gefist upp. Stjórn félagsins telur sig geta sannfært hluthafa Spirit um að tilboð þeirra sé betra en tilboð Frontier. JetBlue er lággjaldaflugfélagm eins og Spirit og Frontier, en býður þó einnig upp á viðskiptafarrými.

Sjá einnig: Frontier og Spirit í eina sæng

Samsteypa lággjaldaflugfélaganna Spirit og Frontier verður fimmta stærsta flugfélag Bandaríkjanna og stærsta lággjaldaflugfélagið, ef samruninn gengur í gegn. Í tilkynningu frá Spirit Airlines í febrúar sagði að sameinaða félagið ætli að bjóða upp á yfir þúsund dagleg flug til 145 áfangastaða í 19 löndum. Jafnframt vilji félagið bæta við flugleiðum til Suður- og Mið-Ameríku og til Karíbahafsins.

Að öllum líkindum mun samruninn ganga í gegn á seinni hluta þess árs. Frontier mun þá eiga meirihluta í félaginu, eða um 51,5%, á meðan Spirit heldur eftir 48,5% hlut.

Gengi bréfa Spirit hefur lækkað um rúm 9% frá opnun markaða í dag. Frontier og JetBlue hafa bæði hækkað lítillega frá opnun markaða í dag.