Þrátt fyrir fallandi kostnað rafhlaðna og áframhaldandi uppbyggingu hleðslustöðvanets um alla Evrópu er útlit fyrir að orkuskiptin verði evrópskum bílaframleiðendum kostnaðarsöm. Þótt áhugi neytenda á rafbílum hafi aukist statt og stöðugt, hefur hann ekki verið jafn mikill og yfirvöld – og nú bílaframleiðendur sem vilja halda sig innan marka nýrra evrópureglna – hefðu viljað.

Síðustu ár hefur orðið sprenging í sölu sportjeppa (e. SUV) í Evrópu, sem hefur farið frá fimmta hverjum seldum bíl árið 2014 í rúmlega þriðja hvern árið 2018. Slíkir bílar skila framleiðendum jafnan meiri hagnaði en hefðbundnir fólksbílar, enda dýrari, en menga einnig meira.

Þetta hefur valdið því að koltvísýringsútblástur bíla hefur farið vaxandi innan Evrópusambandsins síðustu ár, þrátt fyrir tilkomu og fjölgun rafbíla og vistvænni bensín- og díselbíla. Framleiðendur kvarta því yfir því að til að uppfylla skilyrði nýju reglnanna þurfi þeir að fara á skjön við óskir neytenda.

Einn greinandi lýsir rafvæðingu sem ógn við tilvist sumra vinsælla bílaframleiðenda, og annar segir að enginn þeirra muni lifa hana af í óbreyttri mynd. Fregnir hafa þegar borist af tugþúsundum uppsagna hjá stóru þýsku bílaframleiðendunum, og framkvæmdastjóri þýsks rannsóknaseturs um bílamarkaðinn spáir því að 250 þúsund störf muni tapast í iðnaðinum þar í landi á næsta áratug.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .