Fractal 5 er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að þróun á lausn sem líkja mætti við stafræna kaffivél. Stofnendur félagsins eru Guðmundur Hafsteinsson og Björgvin Guðmundsson, en hugmyndin kviknaði í göngutúr síðasta vor þegar allt var í lás sökum farsóttarinnar.

Teymið að baki Fractal 5 horfir á samspil samfélagsmiðla og notagildis, það er hvernig er hægt að nýta forrit, sem bera einkenni samfélagsmiðla en hafa afmarkað hlutverk, til að leysa ákveðin verkefni í sínu daglega lífi. Fyrsta forrit félagsins ber nafnið Kaffi og er í prófun hjá fyrstu notendum.

Virkni þessa fyrsta forrits er á þann veg að þegar notandi þess tekur sér pásu og opnar það sjá aðrir notendur, sem hann tengist, að hann er laus í spjall. Með einum smelli getur fólk þá hafið samræður. Í raun er þar á ferð stafræn útgáfa af því að standa upp frá skrifborðinu í vinnunni, sækja sér vatn eða kaffi og lenda á spjalli við vinnufélaga í leiðinni.

Það gefur auga leið að kveikjan að hugmyndinni var félagslegi þátturinn sem tapaðist síðasta vor þegar aðstæður þvinguðu fólk í heimavinnu. Margar af bestu hugmyndunum kvikna oft í spjalli við vatnsvélina og er lausninni ætlað að tryggja að sá partur tapist ekki þegar starfsfólk færist í auknum mæli í fjarvinnu.

Forstjóri og stofnandi félagsins er Guðmundur Hafsteinsson, en hann á að baki langa starfsreynslu vestanhafs. Síðast var hann yfirmaður vöruþróunar hjá Google til ársins 2019 en þar áður hafði hann leitt þróunarvinnu hjá Apple og eigin sprotum sem síðar voru yfirteknir. Fyrirtækið var stofnað á síðasta ári og eru starfsmenn þess nú sex. Sem fyrr segir er Björgvin Guðmundsson meðstofnandi félagsins, en hann er einn eigenda og stjórnarformaður ráðgjafafyrirtækisins KOM. Þar áður starfaði hann í fjölmiðlum í rúman áratug, síðast sem ritstjóri Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom nýverið út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .