Ofarlega á lista yfir vinsælt íslenskt tónlistarfólk á Spotify má finna listamann sem kallar sig Ouse, nítján ára Króksara sem hóf tónlistarferil sinn í svefnherbergi sínu á Sauðárkróki. Í dag hefur Ouse fleiri hlustendur á Spotify en margt nafntogaðasta tónlistarfólk landsins. Hann gerði nýlega risasamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Twelve Tones og festi í kjölfarið kaup á húsi í Reykjavík.

Ouse heitir réttu nafni Ásgeir Bragi Ægisson og þegar þetta er skrifað er hann með ríflega 1,2 milljónir mánaðarlegra hlustenda á tónlistarveitunni. Undanfarið hefur Ásgeir alfarið helgað líf sitt tónlistinni.

„Ég hef ekki verið í neinni annarri vinnu eða skóla undanfarin tvö ár, bara verið í tónlistinni, þannig að hún hefur verið vinnan mín í nokkuð langan tíma núna," segir Ásgeir.

Á nýliðnu ári skrifaði Ásgeir undir samning við bandaríska útgáfufyrirtækið Twelve Tones og er samningurinn að hans sögn tugmilljóna króna virði.

„Samningurinn felur í sér stuðning og ráðgjöf frá fólki sem er búið að vinna við tónlist allt sitt líf. Þau hjálpa mér með alls konar, hvenær ég á að gefa út lög og hvernig, þau geta hjálpað mér með allt sem við kemur tónlist. Þau veita mér styrk til að gera tónlistarmyndbönd og svo náttúrulega borguðu þau mér pening við undirskrift á samningnum, sem kom sér vel."

Ásgeir byrjaði að skapa tónlist í svefnherbergi sínu á Sauðárkróki, en velgengni hans og vinsældir hafa skilað honum talsverðum tekjum og eftir að hann undirritaði samninginn við Twelve Tones festi hann kaup á húsi í Reykjavík, þar sem hann hefur nú stúdíó í sérherbergi.

„Þetta er alveg geggjað fyrir mig, það eru nokkrir búnir að spyrja mig hvort ég hafi unnið í lottó," segir Ásgeir kíminn. Á Króknum samanstóð stúdíóið hans af tölvu, hljóðnema og hátalara, og hefur það lítið breyst að öðru leyti en að hann hefur fjárfest í nýjum hátalara og heyrnartólum.

Langar að túra í Bandaríkjunum

Tónlist Ásgeirs er spiluð vítt og breitt um heiminn, en flestir hlustenda eru í Bandaríkjunum. „Lagið er lang, langmest spilað í Bandaríkjunum, ég held að meira en helmingur hlustenda minna sé í Bandaríkjunum. Síðan er líka talsvert af hlustendum í Þýskalandi, Ástralíu og mörgum fleiri löndum," segir Ásgeir.

Spurður hvort tónlist hans sé mikið spiluð á Íslandi, segir Ásgeir: „Það eru ekkert rosalega margir á Íslandi sem hlusta á tónlistina mína, ég man ekki alveg í hvaða sæti Ísland er yfir hlustendur en mig minnir að það sé í kringum tíunda sæti. Íslendingar eru náttúrulega svo fáir miðað við önnur land svo það er kannski ólíklegt að landið komist mikið ofar en það." Ekki er þó ólíklegt að Íslendingar séu efstir á blaði, samkvæmt vinsælasta mælikvarða landsmanna, per capita.

Ásgeir segir næstu skref fyrir hann vera að spila tónlist sína á tónleikum, en kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn.

„Mig langar mjög mikið að fara að komast í að spila á tónleikum. Það væri alveg geggjað að túra um Bandaríkin og spila á tónleikum þar, en það er held ég ekkert að fara að gerast alveg á næstunni," segir Ásgeir sem vonar þó að hlutirnir fari að færast aftur í eðlilegt horf.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem nýkega kom út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .