Viðsnúningur varð á sætanýtingu í vélum Icelandair á síðasta ári, framan af fjölgaði auðu sætunum en í nóvember og desember fækkaði þeim aftur og voru þá 80% sætanna fullskipuð að því er Túristi greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í vikunni fjölgaði farþegum Icelandair um 12% í desember frá fyrra ári, og nam heildarfjölgunin 2% fyrir árið.

Að sama skapi kom fram í frétt Viðskiptablaðsins um Wow air í gær að þó félagið hafi aldrei flutt fleiri farþega en á síðasta ári og meðalsætanýtingin aldrei meiri eins og lagt var út frá í fréttatilkynningu að sætanýtingin hafi dregist saman um 7% milli ára í desember.

Icelandair birtir ekki tölur um þróun fargjalda í mánaðarlegum uppgjörum sínum svo lækkun fargjalda gæti verið skýring á aukinni sætanýtingu hjá Icelandair en engin svör hafa fengist við fyrirspurnum Túrista um fargjaldaþróun félagsins eða hvort íslenskum farþegum hafi fjölgað hlutfallslega.

Ferðaþjónustufréttavefurinn telur þó ekki líklegt að verðið hafi lækkað út frá yfirlýsingum um þörf á hækkun þess, heldur bendir hann á að líklegar sé að mikil umræða um stöðu Wow sé að hafa þarna áhrif, fyrst og fremst á heimamarkaði.

„Það er því ekki ósennilegt að ástandið á WOW hafi haft þau áhrif að nú sé aukin ásókn í flug með Icelandair frá Íslandi,“ segir í frétt Túrista. Gera megi svo ráð fyrir að sætanýtingin aukist sakir þess að sex nýjar Boeing MAX vélar félagsins sem Viðskiptablaðið hefur greint frá að séu nú fullfjármagnaðar hafi færri sæti hver.