Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði þann 22. maí fram fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um eignasafn Seðlabanka Íslands. Samkvæmt þingsköpum hefur ráðherra að jafnaði 15 virka daga til að svara en nú eru tæplega þrír mánuðir liðnir og ekkert svar borist.

Fyrirspurnin er komin upp í Seðlabanka enda snýr hún að starfsemi hans. Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi bankans, segir að málið sé í vinnslu og að samkvæmt hans upplýsingum sé frestur til að svara ekki liðinn. "Við höfum tíma út þennan mánuð til að klára þetta," segir hann.

Frá forsætisráðuneytinu bárust þær upplýsingar að fyrirspurnin hefði borist ráðuneytinu skömmu áður en þing hefði lokið störfum í vor og því hefði ekki verið mögulegt að vinna svar og dreifa því á Alþingi fyrir þingfrestun, "enda er fyrirspurnin efnismikil og í mörgum liðum og eðlilegt að það taki nokkurn tíma að vinna svar. Þess í stað er gert ráð fyrir að svarinu verði dreift í rafrænni útbýtingu á Alþingi, í samræmi við þingsköp, áður en nýtt þing kemur saman í september," segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Sigurður Ingi segist sjálfur ekki hafa fengið neinar skýringar á töfunum.

„Ég hef ekki rukkað eftir því með formlegum hætti ennþá. Um leið og þing kemur saman mun ég kalla eftir þessu með nokkru þjósti. Það á að svara fyrirspurnum.

Ég veit að fyrirspurnin er umfangsmikil og átti alveg von á því að það tæki tíma að taka þessar upplýsingar saman.  Ég var þess vegna alveg rólegur framan af sumri en nú finnst mér þessi töf óeðlileg. Ef Seðlabankinn á í erfiðleikum með að svara og hann telur að það gildi bankaleynd um eitthvað af því sem ég spyr um þá segir hann það bara en það að ekkert svar berist er ekki eðlilegt."

Að sögn Sigurðar Inga segir bæði áhugavert og mikilvægt að fá svör við spurningunum.

„Þarna er verið að höndla með alveg gríðarlega fjármuni og það er gert í gegnum opinbert apparat. Það er fullkomlega eðlilegt að þingið, sem eftirlitsaðili með framkvæmdavaldinu, fái þessar upplýsingar. Ef bankinn telur að ekki sé hægt að veita þessar upplýsingar almenningi, sem mér finnst reyndar óeðlilegt, þá væri í það minnsta hægt að koma með þær fyrir lokaða þingnefnd."

Fyrirspurn Sigurðar Inga

  1. Hversu margar eignir/kröfur hefur Seðlabanki Íslands selt, beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?
  2. Í hvaða tilvikum var lánað fyrir kaupunum, við hversu hátt lánshlutfall var miðað, hvaða skilyrði voru sett um tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs, hver var stefnan um vaxtakjör, var í einhverjum tilvikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
  3. Hefur Seðlabankinn, beint eða í gegnum dótturfélög, keypt eignir/kröfur eða fengið framseldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eignir/kröfur, frá bankahruni, hvaða eignir/kröfur voru það, sundurliðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á markaði, hvaða ástæður voru fyrir kaupunum og á hvaða lagaheimild byggði Seðlabankinn eða dótturfélög kaupin?
  4. Hafa eignir/kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er munurinn á kaup- og söluverði, hverjir voru kaupendur og seljendur í þeim viðskiptum og hefur Seðlabankinn eða dótturfélög fengið framseldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafnvel tapast frá því að þeirra var aflað?
  5. Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?
  6. Var sala á eignarhlutum/kröfum Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga bankans ávallt auglýst, hvernig var staðið að útboði/sölu í þeim tilvikum, við hvaða reglur var miðað, voru viðmiðin sambærileg í öllum tilvikum og ef ekki, hvers vegna?
    Svör óskast sundurliðuð milli Seðlabanka Íslands og dótturfélaga eftir því sem við á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .