Ef fram fer sem horfir gætu lífeyrissjóðir þurft að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Á meðan vextir eru í sögulegu lágmarki og Seðlabankastjóri vonast til að þeir haldist áfram lægri en áður, setja vaxandi lífslíkur þjóðarinnar aukinn þrýsting á sjóðina.

Í ofanálag hafa sumir kallað eftir lækkun iðgjalda, en með hækkun mótframlags vinnuveitanda úr 8% í 11,5% árið 2018 er skyldulífeyrissparnaður nú samtals 15,5% af heildarlaunum.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir ljóst að lífeyrissjóðir geti ekki viðhaldið óbreyttum lífeyrisréttindum sjóðfélaga verði allir þrír ofangreindir þættir að veruleika, enda myndu þeir allir þrengja að fjárhag sjóðanna.

Gengið hægt að auka hlutdeild erlendra eigna
Segja má að lífeyrissjóðskerfið standi á krossgötum. Eftir mikinn vöxt síðustu áratugi er það nú orðið afar fyrirferðarmikið í íslensku atvinnulífi. Sem dæmi eiga sjóðirnir um helming alls hlutafjár í Kauphöllinni og eru yfirgnæfandi á skuldabréfamarkaði, en heildareignir íslenskra lífeyrissjóða nema á sjötta þúsund milljarða króna, eða hátt í tvöfalda verga landsframleiðslu.

Flestir hafa þeir lengi haft þá stefnu að auka hlutdeild erlendra eigna, bæði til að auka áhættudreifingu og til að forðast að verða of fyrirferðarmiklir innanlands. Því eru hins vegar takmörk sett hversu mikið og hratt þeir geta flutt fjármagn erlendis, þar sem markaðir með íslensku krónuna eru takmarkaðir að stærð, og takmörkunum á útflæði fjármagns gjarnan beitt þegar að kreppir.

Tímabundið ástand lágra vaxta er ekki áhyggjuefni í sjálfu sér að mati viðmælenda Viðskiptablaðsins, enda ávöxtun sjóðanna verið vel yfir því 3,5% núvirðingarviðmiði sem bundið er í reglugerð um sjóðina. Þó er ljóst að nái raunávöxtun sjóðanna þeirri prósentu ekki til lengri tíma, kemur að lokum til þess að skerða þurfi lífeyrisréttindi.

Vítahringur lægri vaxta
Lágt vaxtastig til lengri tíma gæti einnig falið í sér vítahring fyrir lífeyrissparnað landsmanna. Með lægra vaxtastigi þurfi að spara meira til að eiga tiltekna upphæð í ellinni, en meiri sparnaður landsmanna leiði á móti til enn lægri vaxta þar sem framboð lánsfjár eykst.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .