Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir ekkert annað hafa verið í stöðunni en að herða aðgerðir úr því sem komið er. Starfsfólkið sé orðið vant því að haga seglum eftir vindi í faraldrinum.

„Staðan er auðvitað bara hundfúl, en þetta er ekkert sem við vorum ekki búin undir. Auðvitað breyta hertar fjöldatakmarkanir heilmiklu í okkar rekstri, en starfsfólkið okkar er orðið þaulvant því að gefa í og slaka á eftir því hvernig mál þróast og við erum með allar sóttvarnir upp á tíu. Við getum verið með 20 manns í hverju sóttvarnahólfi á veitingastöðum okkar, þannig að þetta er næstum því bara „business as usual".

Það var ekkert annað í stöðunni en að fara í þessar aðgerðir og við styðjum þær, með það fyrir augum að ástandið hér innanlands geti orðið eins eðlilegt og hægt er þegar þessu lýkur," segir Davíð. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af páskunum, enda hafi þeir ekki verið neitt sérstaklega stórir í hótelbransanum.

„Við erum með fjögur hótel starfrækt núna, þrjú úti á landi og eitt í Reykjavík, og þau hótel eru opin og eru að fá bókanir. Helgarnar hafa verið sérstaklega góðar og ég sé ekki fyrir mér að það verði mikil breyting þar á. Við þurfum bara að haga okkur örlítið öðruvísi, huga að fjöldatakmörkunum og skerpa á sóttvörnum hjá gestum okkar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér