Samband ungra Sjálfstæðismanna hefur sett á laggirnar staðreyndavakt um íslensku stjórnarskrána, breytingar á stjórnarskránni, breytingatillögur og annað sem að stjórnarskránni snýr. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Með staðreyndavaktinni vill SUS leggja sitt af mörkum til að umræða um stjórnarskrármál sé byggð á því sem rétt er og finna má stoð fyrir á vef Alþingis og í öðrum opinberum gögnum.

„SUS telur að umræða um stjórnarskrána og breytingar á henni verði að byggja á því sem rétt reynist til að komast megi að niðurstöðu í sem víðtækastri sátt um stjórnarskrána til framtíðar. Stjórnarskrá hvers ríkis er grundvöllur eða rammi fyrir öll önnur lög sem sett eru í landinu. Hún tryggir grundvallarréttindi hvers og eins borgara og kveður á um grunnstoðir stjórnskipunar,“ segir í fréttatilkynningunni.

Finna má staðreyndavaktina á vefsíðunni stjornarskra.com