Icelandair flutti 267 þúsund farþega í millilandaflugi í nýliðnum desembermánuði og fjölgaði þeim um 1% á milli ára þrátt fyrir að framboðnir sætiskílómetrar hafi dregist saman um 2%. Þetta kemur fram í farþegatölum fyrir desembermánuð sem flugfélagið sendi frá sér fyrr í kvöld.

Samtals flutti Icelandair tæplega 107 þúsund farþega til landsins í mánuðinum og fjölgaði þeim um 11% milli ára, rúmlega 52 þúsund farþega frá landinu sem fjölgaði um 8% og rúmlega 108 þúsund tengifarþega en þeim fækkaði um 9% milli ára. Sætanýting í flugum félagsins í desember var 80,7% og jókst 1,1 prósentustig frá sama tímabili í fyrra. Komustundvísí var 80% í desember og jókst um 6,3 prósentustig frá sama mánuði í fyrra.

Árið sem nú er að líða var stærsta ár í sögu Icelandair en félagið flutti 4,4 milljónir farþega á árinu og fjölgaði þeim um 6% á milli ára. Félagið flutti 1,85 milljónir farþega til landsins á árinu og fjölgaði þeim um 25% milli ára. Farþegar á leið frá landinu voru 643 þúsund talsins og fjölgaði um 18% á milli ára á meðan farþegum í tengiflugi fækkaði um 9% niður í 1,91 milljón en Icelandair lagði á liðnu  ríka áherslu á að fjölga farþegum til og frá landinu á kostnað tengifarþega.

Sætanýting ársins var 82% og jókst um eitt prósentustig auk þess sem komustundvísi hækkaði um 11,6 prósentustig í 74% þrátt fyrir kyrrsettningu Boeing 737 MAX véla félagsins í mars síðastliðnum.

Farþegum í innanlandsflugi fækkar

Farþegar Air Iceland Connect voru 17.715 talsins í desember og fækkaði um 8% á milli ára. Sætanýting var 69,8% og jókst um 9,8 prósentustig milli ára á meðan framboðnum sætiskílómetrum fækkaði um 20% milli ára.

Á árinu 2019 fækkaði farþegum í innanlandsflugi um 12% en þeir voru 282 þúsund á árinu. Nýting ársins nam 70,5% og jókst um 5 prósentustig en framboðnum sætiskílómetrum fækkaði um 21% á árinu.

Færri blokktímar en betri nýting

Seldir blokktímar í leiguflugi voru 2.751 talsins í desember og fjölgaði um 4% frá sama mánuði árið 2018 en á árinu 2019 voru þeir samtals 30.118 og drógust saman um 11% á milli ára. Þá var nýting í mánuðinum 100% og jókst um 15,4 prósentustig á milli ára á meðan hún nam 96,5% á árinu 2019 og jókst um 4,6 prósentustig.

Umfang í fraktflugi Icelandair dróst saman um 6% í desember síðastliðnum en frakttonnkílómetrar voru 10.399 talsins í mánuðum. Á árinu 2019 jukust þeir hins vegar um 6% og voru 132.989 talsins.

Seldu fleiri nætur

Seldar gistinætur á hótelum félagsins í desember voru 21.487 talsins og drógust saman um 4% frá sama mánuði 2018. Nýting mánaðarins var 63,3% og dróst saman um 3,3 prósentustig. Á árinu 2019 voru seldar gistinætur 349 þúsund talsins og fjölgaði um 5% á meðan framboð þeirra jókst um 6%. Nýting á hótelunum var 79,9% á árinu og dróst saman um 0,2 prósentustig á milli ára.

Í tilkynningnu frá Icelandair Group segir Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins meðal annars að gert sé ráð fyrir 25-30% aukningu á farþegum til landsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs:

„Áhersla okkar á markaðina til og frá Íslandi skilaði 25% fleiri farþegum til Íslands en á árinu 2018. Áætlanir okkar hafa því gengið upp og við munum halda áfram á sömu braut á árinu 2020 með uppstillingu leiðakerfisins og áherslum í sölu- og markaðsstarfi okkar. Við gerum ráð fyrir 25-30% aukningu á farþegum til landsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Sveigjanleiki í leiðakerfi félagsins gerir okkur kleift að bregðast hratt við breytingum í umhverfinu og mæta eftirspurn.“