Marel var veltumesta félagið í Kauphöllinni á síðasta ári. Þrátt fyrir það skiptu hlutfallslega fæst bréf þess um eigendur. Þetta er meðal þess sem kemur í ljós þegar gögn yfir veltu í viðskiptum á hlutabréfamarkaði fyrir síðasta ár eru skoðuð.

Velta á markaðnum á síðasta ári nam tæplega 612 milljörðum króna og jóskt um 21% frá fyrra ári eftir að hafa dregist saman um 20% árið 2018. Af félögunum tuttugu sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallarinnar jókst velta tólf þeirra á milli ára. Hlutfall tilkynntra viðskipta, sem samið er um utan tilboðsbókar, var 66,2% á árinu og hækkaði um eitt prósentustig á milli ára.

Mest velta á árinu var með bréf Marel eða 118,2 milljarðar. Um 61% af veltu með bréf fyrirtækisins áttu sér stað fyrir tvískráningu þeirra í kauphöllinni í Amsterdam þann 7. júní en frá skráningunni hefur velta með bréfin þó verið um fjórfalt meiri hér á landi heldur en í Hollandi. Veltan frá skráningu nam um 88,3 milljónum evra eða tæplega 12,2 milljörðum króna á meðan veltan var um 45,9 milljarða á sama tímabili hérlendis.

Á eftir Marel komu svo bréf Arion banka með veltu upp á 98,2 milljarða króna en velta með bréf bankans í Kauphöllinni í Stokkhólmi nam auk þess um 2,2 milljörðum sænskra króna eða um 28,6 milljörðum króna. Þriðja mesta veltan var svo með bréf Símans sem nam um 55,4 milljörðum.

Veltan eykst hlutfallslega

Aukin velta á hlutabréfamarkaði skýrist að einhverju leyti af því að töluverðar hækkanir voru á markaðnum á árinu sem leiðir eðlilega til þess að hærra verð er greitt fyrir hvert bréf. Úrvalsvísitalan, OMXI10 hækkaði um 31,4% á árinu og leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði hún um 33,2%. Þá fór heildarmarkaðsvirði félaganna tuttugu úr 916,6 milljörðum í 1.211 milljarða sem er aukning um 32,1%. Þess ber þó að geta að hækkun Marel stóð undir 224,5 milljörðum af þeirri hækkun og stendur félagið undir 39% af heildarvirði markaðarins. Til að setja þá hækkun í samhengi má nefna að samanlagt markaðsvirði annars og þriðja verðmætasta fyrirtækisins, Arion banka og Brim, nemur um 233 milljörðum króna. Þó hækkaði gengi bréfa þrettán félaga af tuttugu á árinu og hækkuðu 12 þeirra um meira en 10%.

Þó að miklar hækkanir hafi átt sér stað á árinu hefur veltan hins vegar hlutfallslega aukist þegar litið er á veltuhraða hlutabréfa á árinu. Þegar veltuhraðinn er reiknaður sem samanlögð velta í hlutfalli við meðaltal af heildarmarkaðsvirði ársins nam hann 56,4% og jókst um 4,4 prósentustig á milli ára. Sé tekið meðaltal af veltuhraða hvers félags var það 71,7% og hækkaði um 5,8 prósentustig á milli ára.

Til samanburðar má nefna að veltuhraði í kauphöllinni í Stokkhólmi var 67% árið 2018, 54% í Kaupmannahöfn, 57% í Helsinki og 45% í Osló. Veltuhraði hérlendis er því á svipuðum slóðum og annars staðar á Norðurlöndunum en löndin eru þó öll langt á eftir Bandaríkjunum þar sem veltuhraðinn var um 108% árið 2018 sem þýðir að hvert hlutabréfa var að jafnaði keypt og selt oftar en einu sinni á einu á ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .