Stærsti hluthafi Boeing gagnrýnir framkvæmdastjórn félagsins harðleg í opnu bréfi fyrir að hafa brugðist rangt við í máli 737 Max vélanna.. Financial Times greinir frá þessu og segir eigandann, fjárfestingasjóðinn Vanguard, hafa miklar áhyggjur af stöðu mála en 737 Max vélarnar hafa verið kyrrsettar í rúma tvö mánuði.

Undir bréfið skrifar W Robert Main III, framkvæmdastjóri eignastýringar Vanguard, en hann segir fulltrúa sjóðsins hafa fundað með yfirstjórn Boeing og lýst yfir áhyggjum sínum. Vanguard er einn stærsti fjárfestingasjóður heims með um 5,3 trilljónir dollar í stýringu og fer með 7,1% eignarhlut í Boeing.

Main segir í bréfinu að það verði ákveðið í sameiningu með stjórn Boeing hvort farið verði fram á að sérstök rannsókn verði gerð á framferði framkvæmdarstjórnarinnar í málinu. Háværar kröfur hafa verið um að slík rannsókn fari fram og meðal annars hefur  neytendavörðurinn Ralph Nader beitt sér í þá veru en hann missti ættingja í flugslysinu í Eþíópíu.

Boeing tilkynnti á dögunum að búið væri að laga hugbúnaðargallann sem talið er hafa valdið flugslystunum tveimur í vetur. Hins vegar er ekki útlit fyrir að kyrrsetningu vélanna verði aflétt í bráð því talið er að það muni taka Boeing nokkrar vikur að svara spurningum Bandaríska flugmálayfirvalda um málið.