Þrjú ný gámaskip munu sigla nýja vikulega siglingaleið, milli Grænlands ,Íslands, Færeyja og Skandinavíu. Björn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskip, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins og ræðir þar um nýhafið samstarf félagsins við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line (RAL) í siglingum milli Íslands og Grænlands.

Tvö skipanna eru í eigu Eimskips og eitt í eigu RAL, en þau voru öll smíðuð í sömu skipasmíðastöðinni í Kína. Eimskip fékk nýlega annað skipið, Dettifoss, afhent en reiknað er með að hitt skipið, Brúarfoss, verði komið í þjónustu félagsins í lok október. Samningsverð hvors skips fyrir sig nam um 32 milljónum dollara.

„Dettifoss kemur inn í þjónustu hjá okkur og fer í sína fyrstu siglingu frá Árósum þann 10. júlí nk. og leggur að höfn í Reykjavík þremur dögum síðar. Það er hins vegar lengra í að Brúarfoss komi inn í skipaflota Eimskips, við reiknum með því að Brúarfoss komi hingað til lands í haust. Orsök þess eru tafir, m.a. vegna tækni- og vélabilana sem komu upp við smíði skipsins. Nýja skip RAL, Tukuma Arctica, lagði svo í sína fyrstu ferð 12. júní sl. frá Danmörku til Íslands og markaði það upphaf samstarfsins," segir Björn.

Nýju skipin, Dettifoss og Brúarfoss, leysa gámaskipin Goðafoss og Laxfoss af hólmi sem höfðu verið hluti af skipaflota félagsins í tvo áratugi. Í desember á síðasta ári voru skipin seld fyrir um 480 milljónir króna og voru þau tekin úr rekstri í byrjun apríl, fyrr en áður var áætlað. Var um tímabundnar breytingar að ræða vegna áhrifa útbreiðslu COVID-19.

„Nýju skipin eru þau stærstu sem Eimskip hefur haft í sinni þjónustu. Þau rúma 2.150 gámaeiningar, eru 179,4 metrar á lengd og 30,95 metrar á breidd. Þar af leiðandi verða þetta stærstu skip í sögu íslenska kaupskipaflotans. Þetta eru öflug skip sem eru sérsmíðuð til að sigla um í Norður-Atlantshafi. Auk þess eru skipin mun hagkvæmari í rekstri og umhverfisvænni en forverarnir. Nýjar hafnir í Nuuk, Reykjavík og Þórshöfn er helsta forsenda fyrir því að við gátum fært okkur yfir í stærri og hagkvæmari skip."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .