Hugbúnaðarfyrirtækið Kóði þróar fjártæknilausnir og safnar og dreifir fjármálagögnum til viðskiptavina, auk þess að smíða ýmsar sérlausnir fyrir fjármálafyrirtæki, rekstraraðila, stofnanir og fjárfesta. Áhersla fyrirtækisins hefur verið að gera fjármálakerfið skilvirkara og hefur vöruframboð Kóða farið ört vaxandi undanfarin ár.

„Þekktasta vara Kóða er sennilega upplýsingavefurinn Keldan en við erum einnig með Kodiak viðskiptakerfin sem fjármálafyrirtækin nota mikið í sínum rekstri. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti og býður sífellt fleiri lausnir sem auðvelda líf stjórna, stjórnenda og viðskiptalífsins almennt," segir Kristinn Sölvi Sigurgeirsson, verkefnastjóri yfir nýjustu vöru Kóða, Hluthafaskrá, sem fór í loftið í síðustu viku.

„Nýjasta varan okkar, Hluthafaskrá, hefur verið í þróun síðustu mánuði. Upphaflega var hugmyndin að þróa kerfið til þess að auðvelda okkur lífið hér innanhúss. Upp á síðkastið höfum við þurft að uppfæra hluthafaskrá okkar nokkrum sinnum og upplifðum það að slíkt tók tíma frá mikilvægari málum, svo ekki sé minnst á kostnaðinn sem fylgir."

Hluthafaskrá gjarnan í lausu lofti

Fljótlega kom í ljós að lausnin gæti gagnast öðrum fyrirtækjum. „Það er nokkuð algengt meðal fyrirtækja að ýmist gangi illa að halda utan um hluthafaskrána eða það er bara alls ekki gert, þrátt fyrir að lögum samkvæmt þurfi fyrirtæki að gera það. Málefni hluthafa og stjórna, og ekki síst hluthafaskráin, hafa gjarnan verið í lausu lofti. Það hefur margsannað sig að Kóði kann að búa til frábærar fjármálavörur og þetta er enn ein viðbótin við það."

Með Hluthafaskrá Kóða getur stjórnarformaður fyrirtækis úthýst utanumhaldi á hluthafaskránni til þriðja aðila, til dæmis lögfræðings eða endurskoðanda.

„Stjórnarformaðurinn getur í kerfinu stofnað aðra notendur og gefið þeim aðgang að hluthafaskrá fyrirtækisins. Hann getur þannig stýrt því hvernig aðgang notendur fá, ýmist lesaðgang eða réttindi til að breyta skránni. Svo er mjög þægilegt að kerfið gerir stjórnarformanni kleift að gefa öllum hluthöfum lesaðgang að hluthafaskránni, sem þeir eiga lögum samkvæmt rétt á, með einum smelli," segir Kristinn og bætir við að Hluthafaskrá Kóða henti jafnt stórum og smáum fyrirtækjum.

Viðtökur vonum framar

Að sögn Kristins er unnið að því að þróa Hluthafaskrána enn frekar. „Við erum að þróa kerfið áfram með það að markmiði að auðvelda stjórnum, stjórnendum og ekki síst hluthöfum lífið enn frekar. Við erum með mjög spennandi viðbætur á teikniborðinu sem munu ganga enn lengra en það að stimpla einungis inn tölur í hluthafaskrá."

Líkt og fyrr greinir fór Hluthafaskrá Kóða í loftið í síðustu viku og segir Kristinn viðtökur hafa verið vonum framar.

„Fullt af fyrirtækjum hafa skráð sig og við erum að fá virkilega jákvæð viðbrögð frá þeim sem eru byrjuð að nota kerfið. Það kostar ekkert að stofna hluthafaskrá í kerfinu og við hvetjum því öll fyrirtæki til þess að nýta sér það og prófa kerfið," segir Kristinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .