Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hyggjast ráðast í viðspyrnufjárfestingar á næstu tveimur árum til viðbótar öðrum fjárfestingum sem voru áætlaðar, en fyrri áætlanir Veitna gerðu ráð fyrir um 9 milljarða króna fjárfestingum á ári hverju á tímabilinu.

Stjórnir Veitna og móðurfélagsins OR hafa þegar samþykkt að auka fjárfestingar um 2 milljarða á þessu ári og er svo stefnt að því að auka fjárfestingar um allt að 4 milljarða árið 2021, ef fyrrnefndar stjórnir samþykkja þá tillögu á fundum næsta haust. Því stefnir í að Veitur fjárfesti fyrir um 24 milljarða króna á þessu ári og því næsta, en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir um 18 milljarða fjárfestingum á tímabilinu.

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, segir að með þessu hafi fyrirtækið fyrst og fremst viljað bregðast við þeim afleiðingum sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á atvinnulífið með því að sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Auknar fjárfestingar í mannaflsfrekum verkefnum muni hafa mikil áhrif í samfélaginu enda sé gert ráð fyrir að hátt í 200 störf muni skapast á starfssvæði Veitna á suðvesturhorni landsins vegna þessa. Hann leggur áherslu á að þetta verði gert án þess að fjölga starfsfólki Veitna; öll viðbótarvinna verði boðin út á tímabilinu. „Þetta er ekki einhver uppsöfnuð viðhaldsþörf sem við erum að bregðast við heldur vildum við stíga fram á þessum tíma með viðbótarfjárfestingar og um leið styrkja þjónustuna og kerfin okkar."

Betri staða en í hruninu 2008

Til stendur að nýta fjármuni viðbótarfjárfestingarinnar til að ráðast í ýmsar framkvæmdir. Verður m.a. ráðist í verkefni sem hafa verið skilgreind sem mikilvæg á Vesturlandi og verður framkvæmdafé þeirra aukið um 690 milljónir króna í ár og 570 milljónir króna á næsta ári. Því verður tæplega 1,3 milljörðum króna varið í viðbótarframkvæmdir á Vesturlandi á þessu ári og því næsta.

„Löngum hefur verið talað um að þegar það sé útþensla í samfélaginu þá eigi fyrirtæki eins og Veitur að halda að sér höndum en svo í samdrætti eigi hið opinbera að gefa í og auka fjárfestingar. Þannig séu opinberu fyrirtækin ákveðinn sveiflujafnari.

Samfélagið og atvinnulífið hefur þjappað sér vel saman í gegnum COVID-19, rétt eins og fólk þjappaði sér saman í síðasta hruni. Þá var Orkuveita Reykjavíkur í erfiðri stöðu en síðan þá hafa átt sér stað miklar breytingar og staða Orkuveitu samstæðunnar, og þar með talið Veitna, er allt önnur í dag. Í síðasta hruni höfðum við enga burði til þess að stíga inn og  gera það sem við eigum að gera; vera sveiflujafnari þegar kreppir að. Undanfarin ár hafa Veitur og samstæðan sem heild verið rekin á ábyrgðarfullan hátt og þ.a.l. getum við nú sinnt þessu hlutverki okkar sem sveiflujafnari," segir Gestur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .