Starbucks hefur ákveðið að hætta að auglýsa á samfélagsmiðlum, að minnsta kosti tímabundið, Youtube undanskilið. Ástæðan er sögð vera vegna hatursorðræðu sem kann að myndast á samfélagsmiðlum og fetar félagið í fótspor annarra, meðal annars Coca-Cola, Diageo og Unilever, eigandi Ben & Jerry's, með ákvörðuninni. Frá þessu er greint á vef BBC.

Stofnendur herferðarinnar #StopHateforProfit hafa ásakað Facebook um að leggja ekki sitt af mörkum til þess að takmarka hatursorðræðu og rangfærslur. Þrátt fyrir að Starbucks ætli að stöðva auglýsingar sínar á samfélagsmiðlum muni félagið ekki ganga til liðs við herferðina.

Herferðin hefur verið að sækja í sig veðrið en yfir 150 fyrirtæki hafa ákveðið að taka þátt og í kjölfarið hætt að auglýsa. Facebook er mjög háð auglýsingatekjum en hlutabréf félagsins lækkaði um rúm 8% í viðskiptum gærdagsins.