Gengi hlutabréfa bandarísku kaffihúsakeðjunnar Starbucks hefur lækkað um 8,3% það sem af er degi, eftir að fyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Fyrirtækið hagnaðist um 691 milljón dollara á ársfjórðungnum sem var í takt við væntingar markaðsaðila samkvæmt frétt Reuters .

Á sama tíma lækkaði fyrirtækið afkomuspá sína fyrir yfirstandandi ársfjórðung vegna hægari vaxtar í Bandaríkjunum. Er lækkunin talin ástæða þess að bréf félagsins hafa lækkað í verði

Fyrirtækið greindi einnig frá því að það myndi kaupa hinn 50% hlutinn sem fyrirtækið átti ekki fyrir í 1.300 verslunum sínum í Kína. Nemur kaupverðið 1,3 milljörðum dollara og er þetta stærsta yfirtaka í sögu Starbucks.