Rekstrartekjur ræstingafyrirtækisins Hreint ehf. voru 830 milljónir árið 2017 og drógust saman um 8,8% milli ára. Rekstrarkostnaður dróst þó einnig saman um sama hlutfall, auk þess sem ársverkum fækkaði um 8,6%. Rekstrarhagnaður breyttist því lítið, sé tekið mið af stærð félagsins, og var 9,5 milljónir, en hafði verið 10,5 árið á undan.

Ólíkt þeim 2,5 milljónum sem félagið greiddi í tekjuskatt 2016 fékk það rúma hálfa milljón til baka frá skattinum 2017, vegna skattalegs yfirfæranlegs taps í árslok. Hagnaður eftir skatta og fjármagnsliði varð því 11,5 milljónir, en hafði verið 10 árið á undan. Eignir jukust úr 127 milljónum í 138, og skuldir úr 85 milljónum í 91. Eigið fé jókst því um 13%, úr tæpum 42 milljónum í rúmar 47.