Það kostaði Orku náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, 20,7 milljónir króna þegar Páll Erland, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins lét af störfum í september í fyrra. Páll var með níu mánaða uppsagnarfrest samkvæmt ráðningarsamningi að því er Fréttablaðið greinir frá.

Þó að í ársreikningi fyrir síðasta ár segir að um sé að ræða starfslokagreiðslu segir Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi fyrirtækisins að þrátt fyrir það hafi ekki verið um sérstaka greiðslu umfram ákvæði ráðningarsamnings að ræða.

„Það sem þarna er um að ræða eru laun, launatengd gjöld, mótframlag í lífeyrissjóð og orlofsuppgjör samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi starfsmannsins. Ráðningarsamningurinn kvað á um níu mánaða uppsagnarfrest. Það var samkomulag um starfslok,“ segir Eiríkur.

Tilkynnt var um uppsögnina þann 22. september 2016, en í ljós kom síðar að ástæðan hefði verið ágreiningur Páls við stjórn ON, þá fyrst og fremst við Bjarna Bjarnason forstjóra OR og stjórnarformann ON. Hann hafi ákveðið að láta Pál fara, en opinberlega lét hann sjálfviljugur af störfum og var fyrirtækinu innan handar næstu mánuði á eftir.

Uppsagnarfrestur greiðist alla jafna ekki nema um uppsögn er að ræða og segja borgarfulltrúar í minnihlutanum rúmlega 20 milljón króna kostnað vera mikinn. „Mér finnst þetta algörlega út úr kortinu,“ segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í OR segir þetta sýna „fram á mikilvægi þess almennt að menn í yfirmannastöðum séu með sambærilegan uppsagnarfrest og aðrir starfsmenn.“