Fjarskiptafyrirtækið WOM í Chile, sem er í eigu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur velgt keppinautum undir uggum að undanförnu. Stefnur hafa gengið á víxl milli WOM og Entel, helsta keppinautar fyrirtækisins.

Bloomberg greinir frá því að markaðshlutdeild WOM á farsímamarkaði í Chile hafi aukist úr 1,3% í júlí 2015 í 9,7% í september síðastliðnum. WOM varð til árið 2015 eftir kaup Novator á fjarskiptafyrirtækinu Nextel. Markaðshlutdeild Entel lækkaði á sama tíma úr 38% í 32%. Entel tapaði að meðaltali 90 þúsund notendum á mánuði árið 2017. Þá hefur hlutabréfaverð Entel lækkaði um 12% síðasta árið.

Sakað um ósæmilega hegðun

Entel svaraði harðari samkeppni frá WOM með því að bjóða viðskiptavinum WOM sérstök tilboð til að lokka þá yfir til Entel. WOM telur það vera brot á samkeppnislögum og stefndi Entel í byrjun ársins. Entel svaraði í sömu mynt og stefndi WOM vegna ærumeiðandi og villandi auglýsinga og ósæmilegra viðskiptahátta. Meðal umkvörtunarefna Entel, samkvæmt fjölmiðlum í Chile, var að WOM varpaði merki sínu á skrifstofubyggingar Entel. Þá er WOM einnig stefnt fyrir að líkja eftir auglýsingu Entel. WOM fékk sömu fyrirsætur og Entel til að dansa fáklæddar líkt og í gamalli auglýsingu Entel. Þá hafi samanburður á vörum Entel og WOM verið villandi eða beinlínis rangur í auglýsingum Novatorfélagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .