Nýir hluthafar hafa bæst í eigendahóp geoSilica . Fyrirtækið, sem var stofnað árið 2012, vinnur kísilsteinsefni úr affallsvatni frá Hellisheiðarvirkjun. Vörur fyrirtækisins komu á markað árið 2015 og í dag eru þær bæði seldar á Íslandi, sem og í þýskumælandi löndum.

Í dag er fyrirtækið með fjórar vörutegundir á markaðnum. Eru þetta heilsvörur í vökvaformi, sem ætlaðar eru til inntöku. Fyrirtækið hyggst sækja á erlenda markaði að því er fram kemur í tilkynningu. Þegar eru viðræður í gangi um markaðssetningu í Skandinavíu og Kína.

„Einn af hluthöfunum mun aðstoða okkur við að komast á Skandinavíumarkað og svo eru samningaviðræður um Kínamarkað komnar mjög langt á veg," segir Fida Abu Libdeh , annar stofnandi fyrirtækisins.

Nýju hluthafarnir hafa lagt geoSilica til 40 milljónir króna fyrir um 6% hlut í sprotafyrirtækinu. Samkvæmt því er heildarverðmæti fyrirtækisins um 700 milljónir króna.

Fida stofnaði geoSilica ásamt Burkna Pálssyni. Fyrirtækið er með starfsemi að Ásbrú í Reykjanesbæ og við Hellisheiðavirkjun og hjá því starfa fimm manns.