Nú á dögunum hélt hátæknifélagið Algaennovation hátíð vegna opnunar nýrrar verksmiðju. Félagið var stofnað í lok árs 2017 með það að markmiði að setja upp framleiðslutækni fyrir smáþörunga við Hellisheiði.

„Við vorum að fagna því að við erum búin að byggja fyrsta verksmiðjuhúsið og setja í gang fyrstu framleiðslueininguna. Fyrirtækið byggir á gömlu verkefni, en Íslandsstofa sá það í samstarfi við orkufyrirtækin að það væri hægt að selja meira en bara raforku úr jarðvarmaverum. Eitt af því sem menn áttuðu sig á var að það væri sniðugt að finna einhvers konar ferla sem gæti nýtt rafmagn, heitt og kalt vatn og koltvísýring. Það kom tiltölulega snemma upp að smáþörungar gætu verið sniðug lausn í því samhengi," segir Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Algaennovation á Íslandi, og bætir við:

„Íslandsstofa fór því af stað og ræddi við stærstu aðilana í smáþörungabransanum og þá kom nafn höfundar verkefnisins og tæknistjóra fyrirtækisins, Isaacs Berzin, fljótlega inn í myndina. Í kjölfarið kom hann til Íslands að kanna aðstæður og kolfellur fyrir möguleikunum hér. Hann áttaði sig á að það þyrfti að smíða tæknina í kringum möguleikana sem byðust hér á landi, því það var ekki þegar til nein tækni sem hentaði íslenskum aðstæðum. Hann fer því í það að smíða tækni til þess að framleiða smáþörunga í kringum aðstæðurnar sem bjóðast á Hellisheiði."

Að sögn Kristins er virði félagsins ekki fólgið í þörungunum sem tækin skila út úr sér heldur í tækninni sem verið er að bjóða upp á. „Við getum ræktað nánast hvaða þörunga sem er með þessari tækni og getum því elt hvaða markað sem við viljum. Núna erum við að rækta eina tegund af þörungum og fyrir áramót verða fjórar vélar komnar í gang, og ein af þeim mun rækta annan þörung. Þetta gerir okkur kleift að vera miklu frjálsari í því hvernig við horfum á markaði og framtíðina. Við byrjuðum á þessum þörungi því það er tiltölulega auðvelt að rækta hann og búa til vöru úr honum. Hann er mikið notaður í fiskeldi og býður því upp á mörg sölutækifæri."

„Verksmiðjan sem verið var að opna er 530 fermetrar og á næstu sex árum stefnum við á að stækka hana upp í 15.500 fermetra. Fyrsta vélin sem nú er komin í gang mun framleiða um 2,5 tonn af þörungamassa á ári, en við stefnum að því á næstu sex árum að fara upp í rúmlega 1.000 tonn," segir Kristinn.

Kristinn segir að grunnástæðan fyrir þessu verkefni sé sú að stofnendur þess áttuðu sig á því að mjög fljótlega verði ekki til nægur matur til þess að brauðfæða allan heiminn, vegna fólksfjölgunar og aukinnar neyslu matar á hverja persónu. „Í dag er til nægur matur en ástæðan fyrir því að það er hungursneyð á sumum stöðum er sú að við skiptum matnum ekki nægilega vel. Þetta er alþjóðlegt vandamál og stofnendur vildu finna aðferð til þess að framleiða mat á nýjan hátt. Með þessari aðferð er hægt að rækta eitt kíló af próteini og nota til þess 1.500 sinnum minna land og 500 sinnum minna vatn heldur en þarf til að rækta sojabaunir. Þetta gæti verið einn af lyklunum við að leysa fæðuvanda heimsins."

Opnunarhátið Algaennovation á Hellisheiði
Opnunarhátið Algaennovation á Hellisheiði
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Pétur Þorsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, hélt tölu.

Opnunarhátið Algaennovation á Hellisheiði
Opnunarhátið Algaennovation á Hellisheiði
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Nafnarnir Ármannsson og Benediktsson ræddu málefni líðandi stunda.

Opnunarhátið Algaennovation á Hellisheiði
Opnunarhátið Algaennovation á Hellisheiði
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Gestir fengu að virða þörungamassann fyrir sér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .