Rekstrarafgangur samstæðu Ísafjarðarbæjar verður 90 milljónir árið 2019 samkvæmt Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar sem samþykkt var fyrir helgi. Jafnframt er áætlað að skuldaviðmið bæjarins lækki niður í 99,36% í árslok.

Stefnir bærinn á að auka tekjur sínar úr tæplega 4,2 milljörðum króna í ár í tæplega 4,6 milljarða, en útsvarstekjurnar aukast úr 2,1 milljarði í 2,3 milljarða. Á sama tíma fara framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélag úr 854 milljónum í 937 milljónir.

Útgjöld bæjarins aukast á sama tíma úr rífleag 4,1 milljarði í tæplega 4,4 milljarða en rekstrararafgangurinn án fjármagnsliða fer úr 73 milljónum í 175,2 milljónir. Í fyrra var rekstrarniðurstaða í heild neikvæð um 21 milljón en í ár stefnir bærinn að skila tæplega 4 milljóna króna afgangi.

Eyða yfir 900 milljónum í fjárfestingar

„Við erum þess fullviss að hér sé verið að leggja fram ábyrga en jafnframt metnaðarfulla fjárhagsáætlun“, segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sem eins og fjallað var um í fréttum á sínum tíma kemur frá nágrannabænum Bolungarvík.

„Við reynum eftir fremsta megni að taka mið af tvísýnum efnahagshorfum en á sama tíma er verið að ráðast í stórar framkvæmdir, sinna mikilvægu viðhaldi og bregðast við áskorunum sem fylgja fjölgun íbúa og brýnni þörf á úrræðum fyrir barnafjölskyldur.“

Bærinn hyggst setja alls 908 milljónir króna á næsta ári í alls kyns verkefni sem tengjast áherslum bæjarins á  menntamál, velferðarmál, íþrótta- og æskulýðsmál og málefni fatlaðra. Áætlaður beinn kostnaður sveitarfélagsins er 574 milljónir vegna verkefnanna að því er segir í fréttatilkynningu.

Íbúar nálgast 3.900 manns

Meðal stærri verkefna sem ráðist verður í er viðbygging við leikskólann Eyrarskjól á Ísafirði en einnig er áætlað að hefja framkvæmdir við yfirbyggðan gervigrasvöll á Torfnesi. Áfram verður haldið með byggingu á fjölbýlishúsi við Sindragötu.

Ráðist verður í endurbætur og viðhald fyrir ríflega 300 milljónir á árinu en stærstu viðhaldsverkefni sveitarfélagsins verða á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Íbúar ísafjarðarbæjar verða samkvæmt áætlun 3.864 talsins í árslok 2019 en gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmt 1% frá áætluðum fjölda íbúa í lok árs 2018.