Undir lok síðasta árs var tilkynnt um að Já hefði selt smáforritið Leggja til fyrirtækisins EasyPark. Kaupandinn er eitt stærsta fyrirtækið í þessum geira í Evrópu, með þjónustu í átján löndum og um 1.300 borgum. Vilborg Helga Harðardóttir, forstjóri Já, segir meðal annars í viðtali í Viðskiptablaðinu að það hafi verið súrsætt að horfa á eftir Leggja.

„Leggja hefur verið gífurlega góður vaxtarsproti síðan við keyptum það og við stefndum ekki að því að selja lausnina. EasyPark hafði klukkað okkur áður og spurst fyrir um Leggja. Að þessu sinni var það svo að samningaviðræður reyndust farsælar fyrir okkur og á endanum tókum við tilboði þeirra,“ segir Vilborg.

Þótt kaupin hafi gengið í gegn hefur EasyPark ekki tekið formlega við rekstri Leggja en unnið er að því að það gerist á næstu mánuðum. Tímamark þess ræðst að einhverju leyti af tengingum við Bílastæðasjóð.

„Íslendingar hafa verið mjög ánægðir með Leggja enda sparar það bæði tíma úti í kuldanum sem og sektir. EasyPark er að mörgu leyti mjög svipað þótt þjónusta þeirra sé víðtækari. Á næstu mánuðum munu notendur Leggja fá boð um að færa sig yfir í þjónustu nýs aðila en með EasyPark er einnig hægt að nota sama notandaaðgang hér á landi og þegar ferðast er erlendis,“ segir Vilborg.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar segir hið fornkveðna. Því liggur beinast við að forvitnast um það hvort Já, í kjölfar sölunnar á Leggja, horfi á landvinninga á öðrum sviðum eða muni horfa frekar á núverandi kjarnastarfsemi.

„Það eru mikil tækifæri í nýsköpun og þróun í núverandi rekstri og við erum náttúrulega alltaf opin fyrir vaxtartækifærum. Það verður samt sem áður að teljast ólíklegt að við leggjumst í kaup á öðrum félögum eða verkefnum á árinu þar sem það liggur fyrir að setja félagið í söluferli á árinu. Það verður því að teljast ólíklegt að lagst verði í slíkt þótt það sé ekki útilokað,“ segir Vilborg.

Allir hlutir í Já eru í eigu Eignarhaldsfélagsins Njálu en það félag er að langstærstum hluta í eigu framtakssjóðs í rekstri hjá Kviku. „Söluferlið er í undirbúningi og það er ekkert leyndarmál. Ég geri ráð fyrir að undirbúningi ljúki á fyrstu vikum  ársins og það fari formlega af stað eftir það,“ segir forstjórinn.

N ánar er rætt við Vilborgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .