Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar segir að stjórnvöld í Reykjavík hafi ekki haft samráð við bílaleigur landsins vegna hugmynda um að hækka bílastæðagjöld eða setja hámarkstíma á notkun þeirra. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eiga aðgerðirnar að stemma stigu við miklum fjölda bílaleigubíla í miðbænum sem íbúar hafi kvartað yfir.

Steingrímur telur ekki að hækkun gjaldanna muni ekki draga úr notkun ferðamanna á stæðunum að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Þeir muni eftir sem áður þurfa að leggja bílunum.

„Þetta er enn eitt dæmið um aukna gjaldtöku á hendur greininni sem dró landið upp úr huninu,“ segir Steingrímur og vísar þar til fleiri hugmynda um hækkun skatta og gjalda á ferðaþjónustuna, en hann segir formann skipulagsráðs halda því fram að bílaleigubílar ýti undir aukna umferð á háannatímum.

„Þetta er alveg öfugt. Ferðamenn sem eru á bílaleigubílum fara flestir úr bænum á morgnana en aka heim seinni partinn. Fólk sem heldur öðru fram er ekki í tengslum við veruleikann. Ég skil hins vegar að hann reyni að skella skuldinni á ferðamenn.“

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur þótt skorta samráð við hagsmunaaðila frá borginni vegna vegaframkvæmda til að mynda á Miklabraut og við Geirsgötu, og eru orð Steingríms af sama meiði.

„Borgaryfirvöld ættu frekar að fara að vinna með greininni og Vegagerðinni í að bæta umferðarflæði í Reykjavík,“ segir Steingrímur. „Það hefur komið margoft fram að borgin er umferðinni til trafala, til dæmis með andstöðu við mislæg gatnamót.“