Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, birti grein í dag, þar sem hann víkur að því að fullyrðingar nafnlausa dálksins Skjóðunnar hafi verið alvarlegar rangfærslur og dylgjur í garð stjórnenda Landsbankans. Skjóðan er nafnlaus dálkur á vegum Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins.

Aldrei sagst ekki vita af valréttinum

Steinþór segir að óhjákvæmilegt sé að bregðast við þeim alvarlegu rangfærslum sem Skjóðan setur fram. Þar er meðal annars talað um að „ekki sé hægt að halda því fram að [stjórnendum bankans] hafi ekki verið kunnugt um söluna á Visa Europe, sem nú færir nýjum eigendum marga milljarða.”

Steinþór segir Landsbankamenn aldrei hafa haldið því fram að ekki hafi verið vitað af téðum valrétti milli Visa Inc. og Visa Europe, sem er bitbein umræðunnar. Hins vegar hafi ekki legið fyrir við söluna að Borgun ætti að fá nokkra greiðslu vegna Visa Europe.

„Við söluna á Borgun lá á hinn bóginn ekkert fyrir um að Borgun ætti rétt á að fá greiðslur vegna hans. Þessar upplýsingar lágu heldur ekki fyrir við fyrri viðskipti með hluti í Borgun, s.s. á árunum 2010 og 2011, en valrétturinn er frá 2007.”

Söluverðið hafi verið 188% eigin fjár

Steinþór segir þá einnig að söluverð hlutar Landsbankans í Borgun hafi verið mjög hátt, sé miðað við fjármálafyrirtæki - það hafi verið 88% hærra en eigið fé Borgunar. Landsbankinn fór með 31,2% hlut í félaginu og seldi hann á 2,2 milljarða króna.

Í lok greinarinnar segir Steinþór að fullyrðingar Skjóðunnar séu ósannar og fráleitar, og að bankinn hafi þegar tekið mark á gagnrýninni á söluferlið sem hefur verið í umræðunni síðustu daga - en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um var blásið til mótmæla í höfuðstöðvum Landsbankans í Austurstræti.

„Við höfum tekið mark á gagnrýninni á söluferlið. Við hefðum betur haft söluferlið opið og við höfum breytt stefnu okkar til samræmis við það."