Í ræðu á árlegum fundi seðlabankans í Bandaríkjunum sagði stjórnarformaður bankans, Janet Yellen að sterkari rök væru nú fyrir stýrivaxtahækkun.

Meiri efnahagsvöxtur og betra atvinnuástand

Sagði hún að meiri efnahagsvöxtur, og betra atvinnuástand þýddi „rök fyrir hækkun stýrivaxta hafa orðið sterkari á síðustu mánuðum."

Auknar væntingar hafa verið um að stýrivextir í Bandaríkjunum muni hækka á þessu ári, segja sumir að það geti jafnvel orðið að því við næstu stýrivaxtaákvörðun í september.

Lág verðbólga áhyggjuefni

Í lok síðasta árs hækkaði seðlabankinn stýrivexti sína í fyrsta sinn í næstum því heilt ár, en hafa síðan haldið þeim stöðugum vegna áhyggna af því að verðbólgan hefur haldist lág.

Í ræðu sinni sem haldin var í þriggja daga ársfundi bankans í Jackson Hole, í Wyoming ríki sagði hún þó ekki hvenær stýrivextir myndu hækka. En hún sagði að „bandaríska hagkerfið er að nálgast markmið seðlabankans um verðstöðugleika og atvinnuástand."

Neysla eykst

Samt sem áður tók hún fram að allar vaxtahækkanir yrðu gerðar smátt og smátt, en verðbólgan er enn undir 2% verðbólgumarkmiðinu, en hún sagði að henni væri haldið niðri af fyrst og fremst tímabundnum þáttum.

Í tölum sem birtust á föstudag sést að neysla jókst úr 4,2% í 4,4% þó verg landsframleiðsla hafi minnkað úr 1,2% niður í 1,1% á öðrum ársfjórðungi.

Atvinnuleysi minnkar

Jafnframt sýna tölur frá atvinnumálaráðuneytinu að þeir sem þiggja atvinnuleysisbætur fækkaði um 1.000 manns, niður í 261 þúsund ef leiðrétt er fyrir árstíðasveiflum, sem er þriðja vikan í röð sem þiggjendum fækkaði.

Á þriðjudag sýndu tölur frá verslunarmálaráðuneytinu að sala á nýjum heimilum hækkaði í júlí í það mesta sem það hefur verið í nærri því 9 ár.