BM Vallá hóf klukkan 4 í nótt framkvæmdir við stórt Marriot hótel á Hörpureitnum í miðborg Reykjavíkur. Byrjað var að steypa grunn í holuna sem staðið hefur óhreyfð í fjölda ára. Um þrjátíu starfsmenn frá BM Vallá unnu við verkefnið í nótt með bílum, tækjum og tólum að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

„Það er mjög jákvætt að vinna sé loksins hafin á svæðinu því holan var grafin þarna fyrir hrun og hefur staðið óhreyfð síðan. Þessi hola hefur verið mikið lýti á miðborg Reykjavíkur og því kærkomið að fylla upp í hana. Steypumagnið sem við afhentum í nótt var á við 5-7 einbýlishús," segir Gunnar Þór Ólafsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs BM Vallá.

Aðalverktaki framkvæmdanna er Ístak ehf. en um er að ræða 250 herbergja, fimm stjörnu Marriott hótel. „Marriott hótelið á að byggjast upp á miklum hraða. Verktíminn er skammur þannig að það verður mikið um að vera í byggingu og uppsteypu þessa verkefnis í sumar og haust," segir Gunnar enn fremur.