Landsliðsmiðvörðurinn fyrrverandi Kári Árnason lauk nýverið knattspyrnuferlinum með glæsibrag, er hann varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi Reykjavík, uppeldisfélaginu. Í nýútkomnu tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar er að finna ítarlegt viðtal við hann um þennan frábæra endi á ferlinum, atvinnumannaferilinn, landsliðið, nýja starfið innan raða uppeldisfélagsins og ýmislegt fleira.

Spurður um hvað hafi staðið upp úr á atvinnumannaferlinum segir Kári að tíminn í enska boltanum hafi staðið upp úr. „Boltinn sem er spilaður á Englandi hentaði mér best, auk þess sem ég var á toppnum á mínum ferli um það leyti sem ég spilaði þar. Árangurinn sem náðist meðan ég spilaði með Malmö, þar sem við komumst m.a. í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, stendur einnig upp úr."

Á Englandi spilaði Kári með Plymouth Argyle og Rotherham United. Hjá síðarnefnda liðinu lék hann undir stjórn Steve Evans, sem af lýsingum að dæma er vægast sagt litríkur persónuleiki.

„Ég kynntist flestum af mínum bestu vinum sem ég hef eignast í gegnum fótboltann hjá Rotherham. Það var eitthvað sérstakt sem átti sér stað innan þessa liðs og margir sem voru hluti af þessu liði eru sammála um að þetta hafi verið skemmtilegasti tíminn á ferlinum. Við vorum með gott lið, náðum hörkuárangri og fórum tvisvar upp um deild."

Kári segir furðulega samstöðu hafa myndast innan leikmannahópsins. En hvað var svona furðulegt við þessa samstöðu? Jú, uppspretta hennar var samrómur meðal leikmannahópsins um að stjórinn væri „gjörsamlega óþolandi".

„Það bjó til ákveðið bræðralag innan hópsins. Allir áttu eitt sameiginlegt og það var óþolið í garð stjórans. Menn voru að leggja sig fram fyrir sjálfa sig en ekki stjórann. Hann hafði alveg sína kosti en heilt yfir var þetta eins og í grínmynd. Það var alltaf eitthvað nýtt sem kom upp á hverjum degi. Hann var snælduvitlaus í skapinu og lét það bitna á leikmönnum. Eftir að hafa upplifað svona stjórnunarhætti í smá tíma byrjaði mér bara að finnast þetta fyndið og tók það ekki nærri sér þó að hann væri að drulla yfir mig," segir Kári og nefnir dæmi um athæfi fyrrverandi stjóra síns sem vakti síður en svo mikla kátínu innan leikmannahópsins.

„Hann pissaði alltaf í vaskinn á skrifstofunni sinni en rörið úr vaskinum leiddi beint inn í sturturnar í búningsklefanum. Á hverjum morgni þegar við mættum til æfinga tók því á móti okkur sterk ammoníaklykt í búningsklefanum."

Nánar er rætt við Kára í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .