Björgólfur Jóhannsson, sem gegnir tímabundið stöðu forstjóra Samherja, segir í hádegisfréttum RÚV að félagið muni ekki svara ásökunum um mútugreiðslur á meðan innri rannsókn fyrirtæksins sé í gangi.

Norska lögmannsstofan Wikborg Rein stýrir rannsókninni sem beinist sérstaklega að starfsemi Samherja í Namibíu. Þá sagði Bjögólfur að stjórn Samherja hafi heitið því að starfa með rannsókn opinberra aðila á málinu.

Björgólfur þvertók fyrir að svara hvort hann teldi að mútugreiðslur hafi veirð greiddar til embættismanna í Namibíu.   „Það hefur engan tilgang í sjálfu sér að spyrja félagið aftur og aftur þessara spurninga. Þetta er í farvegi og félagið mun fara yfir þetta þegar það liggur fyrir og annað er í svona, ef við værum að svara hluta og hlutum og ekki hlutum að þá væru það svona getgátur að mínu viti.“

Spurður hvort rannsókn lögmannsstofunni þýddi það að fyrirtækið væri að rannsaka sig sjálft svarað Björgólfur. „Fyrirtækið er ekki að rannsaka sig sjálft. Stjórn fyrirtækisins vill fá niðurstöðu í málið.“