Aðalstjórnarandstöðuflokkur Tyrklands, Lýðveldisflokkur þjóðarinnar (Republican People´s Party) hélt mótmælafund á Taksim torginu í Istanbúl ásamt með stuðningsmönnum Recep Tayyip Erdogan forseta landsins til að mótmæla valdaránstilraun hersins þann 16. júlí síðastliðinn.

Arftaki Atatürk

Flokkurinn er arftaki hugmyndafræði Mustafa Kemal Atatürk sem stofnaði tyrkneska lýðveldið uppúr rústum Ottóman ríkisins, en flokkurinn stendur gegn áhrifum íslamstrúar á stjórn landsins.

Sagði leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins, Kemal Kilicdaroglu, þeim þúsundum sem þar voru samankomnir að þjóðin hafnaði ólýðræðislegum öflum. Flokkurinn stóð gegn valdaránstilrauninni, en stuðningurinn við Erdogan nær þó ekki lengra en svo að hann kaus gegn neyðarlögum sem forsetinn lýsti yfir í síðustu viku, því þau gæfu ríkisstjórninni of mikil völd.

30 daga varðhald

Meðal annars getur ríkið nú haldið sakborningum í fangelsi í allt að 30 daga án þess að hafa verið ákærðir. Segir flokkurinn að þó þeir hafni valdaráninu séu þeir ekki hlynntur þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til í kjölfarið.

Má þar nefna að skopmyndablaðið LeMan var stöðvað, með dómsúrskurði, frá því að gefa út nýjasta tölublað sitt, vegna forsíðu sem sýndi hendur ýta mótmælendum og hernum út í átök.

Í kjölfar þess að forsíðan var birt á samfélagsmiðlum söfnuðust mótmælendur fyrir framan ritstjórnarskrifstofur blaðsins, og sögðu: „vitið þið ekki hvað kom fyrir Charli Hebdo?“ að sögn blaðamanns CNN, en ráðist var á ritstjórnarskrifsofur franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo í kjölfar birtingar teiknimynda sem sýndu Múhammeð spámann Íslamstrúar.

Hótanir íslamista teknar alvarlega

„Við ættum alltaf að taka hótanir pólítískra íslamista alvarlega, því þeir gera eins og þeir segja,“ sagði ritstjóri blaðsins, Zafer Aknar. „Ef ekki í dag, þá á morgun. Þegar þeir hafa tækifæri til.“

Aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa til að mynda verið að leysa upp sérstaka herdeild sem á að verja fosetann, en hermenn úr henni hertóku ríkissjónvarp Tyrklands í valdaránstilrauninni.

Hafa um 50 þúsund manns verið reknir úr stöðum sínum í her og ríkisstofnunum landsins, þar á meðal dómarar, kennarar, lögregla og fréttamenn.